Skoðun

Sigursaga Evrópu í 21 ár

Pawel Bartoszek skrifar

Þann 1. maí 2004 gengu tíu ný ríki í Evrópusambandið. Þetta voru Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland, Slóvenía, Malta og Kýpur. Þetta var stærsta stækkun sambandsins í sögunni og um leið táknræn sameining Evrópu eftir áratugi aðskilnaðar milli austurs og vesturs. Í dag, 21 ári síðar, er ljóst að þessi stækkun hefur haft gríðarleg jákvæð áhrif – ekki aðeins á nýju aðildarríkin, heldur einnig á álfuna í heild sinni.

Sé litið til efnahagsvaxtar er ljóst að stækkunin hefur verið fullkomin sigursaga. Til dæmis hefur Pólland, stærsta ríkið í umræddri stækkunarlotu nánast þrefaldað landsframleiðslu á mann frá árinu 2004. Eystrasaltsríkin hafa fest sig í sessi sem öflug og nútímaleg hagkerfi, og traustur samstarfsaðili okkar Íslendinga á alþjóðavísu. Flest ríkja í umræddri stækkunarlotu hafa nálgast eða jafnvel náð meðaltekjum eldri aðildarríkja ESB. Þannig er verg landsframleiðsla á mann nú hærri í Slóveníu en á Spáni eða í Portúgal.

Stækkun ESB opnaði ótalmörg tækifæri, jafnt fyrir fólk sem fyrirtæki um alla Evrópu. Hún opnaði á aðgang að innri markaði, hún liðkaði fyrir fjárfestingum þvert á landamæri og tryggði frelsi fólks til að starfa og ferðast og alla Evrópu. Það er þess vegna full ástæða til að fagna þessum tímamótum. Evrópuhugsjónin hefur sannað gildi sitt. Hugsjón sem tryggir frelsi fólks og bætir lífsgæði hjá fjölda þjóða er hugsjón sem er þess virði að berjast fyrir.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Sjá meira


×