Skoðun

Endur­nýjun hugar­farsins

Bjarni Karlsson skrifar

Þegar þau okkar sem eftir lifa árið 2045 horfa til baka mun fólk sjá að ástand þessara daga var dýrkeypt flensuskot hjá tegundinni. Ónæmiskerfi þjóðanna lamaðist og lá niðri um skeið svo freki kallinn hélt í alvöru að hann hefði endurheimt sviðið með viðeigandi morðæði og hrottaskap.

Í baksýnisspegli tímans munum við skilja að þessi víkjandi hegðun fjöldans var ekki skortur á siðferði. Við hikuðum vegna skjálfta sem fór um þjóðirnar af miklu dýpi.

Það var ekki sprengjugnýr stórvelda eða grimmdaræði ofríkismanna sem lamaði okkur heldur glímuskjálfti mannsandans frammi fyrir hinu stóra verkefni sem ekki verður umflúið; að viðurkenna eigið samhengi og bregðast við tveimur megin staðreyndum:

I.Mannkyn er aðili að stórkostlegu undri – lífinu sjálfu.

II.Lífkerfið sem við erum þátttakendur í þarf þó ekkert á mannkyni að halda og mun eyða okkur ásamt börnum okkar nema við endurnýjum eigið hugarfar.

Við höfum hingað til litið á jörðina og önnur lífsform sem hráefni en hvert annað sem keppinauta. Þessu munum við þurfa að breyta.

Ég nefni fjögur verkefni:

  • Við munum þurfa að trúa á samráð umfram yfirráð.
  • Við munum þurfa að læra að halda hvert öðru ábyrgu með virðingu og skilningi en styðjast við refsingar sem neyðarrúræði.
  • Við munum þurfa að sjá og viðurkenna almannahag en hafna sérhagsmunagæslu á kostnað manns og náttúru.
  • Við munum þurfa að skilgreina allt fólk sem samstarfsaðila í lífsbaráttunni fremur en keppinauta.

Hugarfarið sem jaðarsetur fólk og náttúru er eitt og sama hugarfarið. Því er tómt mál að tala um frið í veröldinni nema ávarpa fátæktina og vistkerfisvandann í sama orði. Við erum öll hugsandi og ábyrgar verur.

Höfundur er prestur og siðfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×