Viðskipti innlent

„Rán um há­bjartan dag“ kom ekki á ó­vart

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Björn Berg Gunnarsson segir dæmið um okur í gjaldeyrisviðskiptum sem Ingibjörg Sólrún deildi á samfélagsmiðlum því miður ekki koma á óvart.
Björn Berg Gunnarsson segir dæmið um okur í gjaldeyrisviðskiptum sem Ingibjörg Sólrún deildi á samfélagsmiðlum því miður ekki koma á óvart. Vísir/samsett

Sonur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrverandi ráðherra og formanns Samfylkingarinnar, tapaði hátt í fimmtán þúsund krónum við að skipta erlendum gjaldeyri í Leifsstöð á dögunum. Fjármálaráðgjafi segir dæmið því miður ekki koma á óvart þar sem algengt sé að slæm kjör bjóðist í hraðbönkum og hjá gjaldeyrismiðlurum á fjölförnum ferðamannastöðum.

Ingibjörg Sólrún vakti athygli á afar vondum kjörum sem syni hennar buðust í gjaldeyrisviðskiptum á Keflavíkurflugvelli á dögunum. „Rán um hábjartan dag,“ skrifar Ingibjörg Sólrún á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi þar sem hún birtir mynd af kvittun vegna gjaldeyriskaupa Sveinbjarnar sonar hennar við fyrirtækið Prosegur Change í Leifsstöð þann 23. apríl.

„Sonur minn var á leið úr landi og af því hann átti dollara en var á leið á evrusvæði skipti hann 400 dollurum í evrur. Í stað þess að fá ca 350 evrur fékk hann 250 af því þjónustugjaldið sem bankinn í Leifsstöð tók var 10.94%!” skrifar Ingibjörg.

Færsla Ingibjargar hefur vakið nokkur viðbrögð.Facebook

Af kvittuninni má ráða að Bandaríkjadalirnir hafi verið keyptir af Sveinbirni í íslenskum krónum á nokkuð lágu gengi en Evrurnar síðan seldar honum á háu gengi. Þar að auki var tekið hátt í 11% í þjónustugjald og fékk Sveinbjörn þannig töluvert minna í sinn hlut en ætla mætti. Sé miðað við meðalgengi dagsins sem viðskiptin fóru fram tapaði Sveinbjörn um það bil 100 Evrum á viðskiptunum, eða sem nemur um 15.000 íslenskum krónum sem er hátt í þriðjungur af upprunalegu virði gjaldeyrisins sem hann skipti.

Þetta segir Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi því miður ekki koma á óvart. „Í þessu tilfelli, og eins og sagt er frá þarna, þá er verið að taka kostnaðinn með tvennum hætti. Það er annars vegar tekin yfirleitt töluverður kostnaður í öllum viðskiptum með gjaldeyri í formi gengisins, þarna er aðeins verið að smyrja á gengið til þess að taka þar tekjur, en svo er í þessu tilfelli líka verið að taka einhvers konar færslugjald,“ segir Björn í samtali við Vísi.

„Það er auðvitað svo mikið að við eigum auðvitað ekki að koma nálægt neinu svona. En þetta er ekki óeðlilegt eða óalgengt. Það var alls ekkert sjokk að sjá þessa færslu. Þetta sjáum við á hverju einasta ári,“ segir Björn.

Borgi sig að forðast hraðbanka á ákveðnum stöðum

Hann ráðleggur gegn því að eiga viðskipti með gjaldeyri við þjónustustöðvar sem þessa og segir sömuleiðis mikilvægt að velja vel hvaða hraðbankar eru notaðir á ferðalögum erlendis.

„Það er töluvert um áberandi hraðbanka á þægilegum stöðum, á algengum ferðamannastöðum, á flugvöllum og þess vegna ekkert skrítið að okkur finnist það þægilegt og við röltum í þá hraðbanka. En þar er kostnaðurinn yfirleitt það mikill að við eigum ekki að koma nálægt þessu. Ef við ætlum að fara í hraðbanka á ferðalögum þá er yfirleitt ódýrast að fara í hraðbanka sem er staddur í bankaútibúi hjá stórum banka á staðnum,“ segir Björn.

Alla jafna ættu kjörin að vera skárri í útibúum stærri banka, bæði fáist hagstæðara gengi og annar kostnaður eða þjónustugjöld lægri. Oft geti einnig verið þess virði að meta hvort nauðsynlegt sé að vera með gjaldeyri eða hvort það dugi að nota kortið. Þá gæti einnig borgað sig að athuga hvort hægt sé að versla gjaldeyri við sinn eigin viðskiptabanka.

„Það getur verið þægilegt, það fer svolítið eftir hvar þú ert. Ef við höfum aðgengi til dæmis að þeim gjaldmiðlum í okkar viðskiptabönkum, það er orðið bara minna um það að hægt sé nálgast erlendan gjaldeyri í íslenskum bönkum til dæmis. Þannig það er orðið erfiðara að gera það hérna heima,“ segir Björn. 

Gott að fara yfir góð ráð fyrir ferðalagið

Að öðrum kosti ítrekar hann að yfirleitt sé best að nýta hraðbanka í útibúum stærri banka erlendis, frekar en litla „ferðamanna-hraðbanka“ á vinsælum ferðamannastöðum.

„En yfirleitt er það þannig að við getum notað kortið þar sem við verðum í útlöndum, og getum þá kannski bjargað okkur frá flugvellinum með þeim hætti og svo þegar við erum komin niður í bæ þá förum við í útibú hjá stórum banka og ættum þar að vera alla veganna nokkuð viss um að fá betri kjör heldur en í einhverjum hraðbanka með Evrópumerkinu við hliðina á einhverjum veitingastað niðri í bæ,“ segir Björn.

Með stuttri og einfaldri leit á internetinu sé auðveldlega hægt að komast að upplýsingum um gengi gjaldmiðla og þá hægt að meta hversu sanngjarnt gengið er sem býðst. Það geti borgað sig einnig að verja nokkrum mínútum í að kynna sér góð ráð áður en lagt er af stað í ferðalagið.

„Ábendingar og góðar ráðleggingar varðandi notkun peninga í útlöndum og á ferðalögum. Það er mjög gott að renna yfir slíkt, gefa sér fimm mínútur í það áður en haldið er út, þannig að við bara komum heim með meiri pening.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×