Fótbolti

Svein­dís Jane slapp við síðasta sætið á ís­lenska listanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvö mörk í þýsku deildinni en fjögur mörk í einum leik í Meistaradeildinni.
Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvö mörk í þýsku deildinni en fjögur mörk í einum leik í Meistaradeildinni. Getty/Maja Hitij

Ísland átti fjórar landsliðskonur í þýsku Bundesligunni í fótbolta á þessu tímabili og þær deildu allar titlinum að vera markahæsti íslenski leikmaður deildarinnar á 2024-25 tímabilinu.

Sveindís Jane Jónsdóttir lék sinn síðasta leik með Wolfsburg í lokaumferðinni og var í byrjunarliðinu í 3-1 sigri á Bayer Leverkusen. Sveindís skoraði annað mark liðsins og það mark var vissulega langþráð eins og sjá mátti á fögnuði okkar konu.

Þetta var fyrsta deildarmark Sveindísar síðan 4. október en hún hafði ekki skorað í fimmtán deildarleikjum í röð. Fjögur af sex mörkum Sveindísar fyrir Wolfsburg á leiktíðinni komu í einum og sama Meistaradeildarleiknum á móti AS Roma í desember.

Þetta mark Sveindísar þýddi jafnframt að hún varð ekki í neðsta sætinu á íslenska markalistanum í þýsku deildinni. Allar fjórar íslensku stelpurnar skoruðu nefnilega jafnmikið á tímabiliinu.

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu í nítján deildarleikjum með VfL Wolfsburg

Glódís Perla Viggósdóttir skoraði tvö mörk og gaf tvær stoðsendingar í átján leikjum með Bayern München.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði tvö mörk og gaf sex stoðsendingar í 23 leikjum með Bayer 04 Leverkusen.

Emilía Ásgeirsdóttir skoraði tvö mörk í tíu leikjum með RB Leipzig en hún náði ekki að gefa stoðsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×