Íslenski boltinn

„Þurfa allar og við þjálfararnir að líta í eigin barm“

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Matthías Guðmundsson er annar þjálfara Vals sem hefur nú tapað þremur deildarleikjum í röð.
Matthías Guðmundsson er annar þjálfara Vals sem hefur nú tapað þremur deildarleikjum í röð. vísir/Jón Gautur

Valur hlaut afhroð í kvöld á Kópavogsvelli þegar liðið tapaði 4-0 á móti sínum helstu keppinautum undanfarinna ára í Breiðablik. Þriðja tap Vals í röð í Bestu deildinni staðreynd. Matthías Guðmundsson, þjálfari Vals, var allt annað en sáttur.

„Slæmar tilfinningar eftir þennan leik. Við byrjum bara þennan leik mjög illa og fáum á okkur mark mjög snemma. Eftir það þá bognum við mjög mikið og erum eiginlega hálf brotnar þarna, bognar allan fyrri hálfleikinn. Betra lið sem kom þó inn á í seinni hálfleik.“

Aðspurður hvað liðið og þjálfararnir gætu tekið úr þessum tapleik þá snerist það helst að andlegum þáttum liðsins, að mati Matthíasar.

„Við erum búnar að bogna aðeins. Sjálfstraustið er aðeins búið að lækka hjá okkur, við þurfum að þjappa okkur vel saman. Við þurfum að mynda liðsheild og bara líta í eigin barm allar og við þjálfararnir.“

Valsliðið hefur orðið fyrir mikilli gagnrýni á þessu tímabili og í aðdraganda þess. Liðið var að tapa sínum þriðja leik í röð í Bestu deildinni, sem hefur ekki gerst í fjölmörg ár. 

Gagnrýnin hefur meðal annars beinst að þeirri vegferð sem liðið er á. Matthíasi var gefið tækifæri á að svara þeirri gagnrýni eftir þennan leik.

„Við erum Valur, við erum að fara í leiki til að vinna þá, ekki spurning, en við erum líka að horfa lengra fram í tímann. Við erum með nógu gott lið til þess að vinna öll lið í þessari deild, það er ekki spurning,“ sagði Matthías að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×