Leik lokið: Stjarnan - Víkingur 2-2 | Hornspyrnur urðu heima­mönnum að falli

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Valur - Víkingur Besta Deild Karla Vor 2025
Valur - Víkingur Besta Deild Karla Vor 2025 vísir/Diego

Stjarnan og Víkingur gerðu 2-2 jafntefli sín á milli á Samsung vellinum í sjöundu umferð Bestu deildar karla. Víkingar voru mun betri aðilinn í fyrri hálfleik og hefðu hæglega getað skorað meira en eitt mark þar. Stjarnan mætti mun betur búin inn í seinni hálfleikinn og skoraði tvö mark, en skortir kunnáttu til að verjast hornspyrnum og þurfti að sætta sig við stig.

Víkingur var mun hættulegri aðilinn í fyrri hálfleik. Mikið sótt upp vinstri vænginn þar sem Stígur Diljan lék á mann og annan, en tókst ekki að nýta dauðafærið sem Gylfi Sigurðsson gaf honum eftir sjö mínútna leik. Árni Snær varði skallann af stuttu færi með góðum viðbrögðum.

Sem var besta færi Víkinga úr opnum leik í fyrri hálfleik, hættan annars helst í hornspyrnum.

Stjarnan komst lítið áleiðis sóknarlega en Benedikt Warén átti mjög skemmtilegt skot á 25. mínútu sem small í stönginni. Virtist ekki vera í skotfæri en sá Ingvar illa staðsettan í markinu og skaut yfir hann.

Skoruðu eftir horn sem átti ekki að vera horn

Víkingar voru hins vegar áfram með yfirhöndina og uppskáru mark fimm mínútum síðar. Boltinn barst til Daníels Hafsteinssonar við vítateigslínuna eftir hornspyrnu og hann þrumaði viðstöðulaust í netið. Mark upp úr hornspyrnu sem átti aldrei að vera hornspyrna, mislesið hjá dómaranum.

Víkingar voru nálægt því að bæta öðru marki við rétt fyrir hálfleik. Stjarnan lenti þá enn og aftur í vandræðum við að hreinsa hornspyrnu burt, björguðu á línu og Stígur skaut svo í stöngina. Algjört klafs og vesen en reddaðist einhvern veginn. Erlingur Agnarsson fékk svo frábært færi en tók skotið í ójafnvægi og hitti boltann illa.

Allt annað hjá Stjörnunni í seinni hálfleik

Stjörnumenn fóru marki undir inn í hálfleikinn og fengu væntanlega að heyra það frá þjálfara sínum. Liðinu vantaði alla ákefð og orku, en mætti sannarlega svoleiðis út í seinni hálfleikinn.

Mun betri spilamennska hjá heimamönnum en það dugði ekki til og þreföld breyting var gerð á sextugustu mínútu. Sem gaf Stjörnumönnum enn meiri orku og skömmu síðar skoruðu þeir tvö mörk.

Emil Atlason var fyrri á ferðinni með fína afgreiðslu eftir að hafa sloppið einn í gegn. Guðmundur Baldvin átti mikinn þátt í markinu, vann boltann á miðjunni og varð á undan Sveini Gísla sem ætlaði svoleiðis að hreinsa. Potaði honum inn fyrir á Emil og eftirleikurinn var auðveldur, fyrir hann allavega.

Örvar Eggertsson kom Stjörnunni svo yfir með stórkostlegu skallamarki. Sveif eins og haförn um háloftin, enda fyrrum Íslandsmeistari í hástökki, fékk fyrirgjöf frá varamanninum Jóhanni Árna og stangaði í netið.

Hornin urðu heimamönnum að falli

Víkingar lögðu þá af stað í leit að jöfnunarmarki eftir að hafa lítið sýnt í seinni hálfleik.

Þeir uppskáru hornspyrnu sem Stjörnumenn lentu enn og aftur í vandræðum með, björguðu fyrst á línu, Nikolaj fylgdi svo eftir og kom boltanum í netið á 83. mínútu.

Emil skaut yfir

Bæði lið reyndu að sækja sigurmarkið og síðustu mínúturnar urðu stórskemmtilegar, með fullt af færum.

Emil Atlason fékk langbesta færi leiksins á fimmtu mínútu uppbótartíma, stóð nánast inn í markinu og fékk fyrirgjöf en tókst einhvern veginn að skjóta yfir. Liðin skildu því jöfn og hirtu stig hvort.

Atvik leiksins

Hornspyrnan sem Víkingur uppskar mark úr í fyrri hálfleik átti aldrei að vera hornspyrna. Valdimar Ingimundarson snerti boltann síðastur og sneiddi hann framhjá markinu. Stjörnumenn létu hann meira að segja fara, svo vissir voru þeir. Mistök hjá dómurum, sem urðu einstaklega slæm þegar Víkingur skoraði upp úr hornspyrnunni.

Stjörnur og skúrkar

Miðvörðurinn Sigurður Gunnar á hrós skilið fyrir fórnirnar sem hann færði Stjörnuliðinu. Kastaði sér fyrir allt og mætti með læti í öll návígi. Fékk að finna vel fyrir því en harkaði allt af sér og hélt áfram.

Jóhann Árni Gunnarsson átti mjög öfluga innkomu af varamannabekk Stjörnunnar, í sínum fyrsta deildarleik í sumar, og lagði annað markið upp á Örvar.

Emil Atlason er skúrkur kvöldsins, fyrir ævintýralegt klúður í uppbótartímanum.

Stígur Diljan sprækastur í liði Víkings í fyrri hálfleik en ekki sá sami í seinni hálfleik, líkt og eiginlega allt lið Víkings reyndar þar til þeir lentu undir og stigu aftur upp.

Stemning og umgjörð

Með besta móti í Garðabænum. Grillveður og allir í góðum gír á Stjörnutorgi. Víkingar með sitt forskott fyrir leik. Þar sást glæsilegur pallbíll skreyttur fánum, hljóðkassi í hæstu stillingu og stærðarinnar kælibox sem hafði væntanlega eitthvað gott að geyma.

Dómarar

Handvissa um að hornspyrna Víkings hafi aldrei átti að vera horn. Virtust allir á vellinum sammála um að þetta yrði markspyrna.

Að öðru leiti vel haldið utan um hlutina. Spjöldin í vasanum þar til virkilega þurfti á þeim að halda, sem er vel.

Viðtöl

Eru væntanleg á Vísi von bráðar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira