Khalil var handtekinn í byrjun mars og sakaður um gyðingaandúð vegna mótmæla sem hann stóð fyrir. Til stendur að vísa honum úr landi, þrátt fyrir að hann sé með varanlegt dvalarleyfi, eða svokallað „grænt kort“. Khalil hefur höfðað mál og sagt brotið á tjáningarfrelsi sínu.
Í úrskurði Michael Farbiarz héraðsdómara frá því í gær segir að Khalil sé ekki hættulegur umhverfi sínu og því sé engin ástæða til að halda honum lengur í varðhaldi. Hann verður áfram á skilorði.
„Réttlæti hefur verið náð, en það tók allt of langan tíma,“ sagði Khalil við blaðamenn fyrir utan fangelsið í Louisiana í gær eftir að honum var sleppt eftir 104 daga í varðhaldi.
Þá gagnrýndi hann ríkisstjórn Trump fyrir að hafa vegið að tjáningarfrelsi hans með þessum hætti.
„Það ætti enginn að þurfa að sitja inni fyrir að mótmæla þjóðarmorði.“
Í yfirlýsingu vegna málsins sakaði Abigail Jackson, talskona Hvíta hússins, Khalil um svik og rógburð auk þess að skaða hagsmuni Bandaríkjanna í utanríkismálum. Þá kom fram að Michael Farbiarz dómari hefði ekki valdheimildir til að fyrirskipa að Khalil yrði látinn laus.
„Við gerum ráð fyrir að úrskurðinum verði snúið við eftir áfrýjun, og hlökkum til að brottvísa Khalil úr Bandaríkjunum.“
