Innlent

Lög­regla rann­sakar al­var­legt slys í Lágafellslaug

Agnar Már Másson skrifar
Bæjaryfirvöld báðu lögreglu um að rannsaka málið og fólu ytri aðila að gera öryggisúttekt fyrir sundlaugina.
Bæjaryfirvöld báðu lögreglu um að rannsaka málið og fólu ytri aðila að gera öryggisúttekt fyrir sundlaugina. Vísir/Vilhelm

Fullorðinn einstaklingur slasaðist í sundlaug í Mosfelssbæ á dögunum og hafa bæjaryfirvöld óskað eftir því að lögregla rannsaki atvikið. Ytri aðila hefur verið falið að gera öryggisúttekt í votrýmum sundlaugarinnar.

Arnar Jónsson, sviðsstjóri menningar-, íþrótta- og lýðheilsusviðs Mosfellsbæjar, staðfestir í svari við fyrirspurn fréttastofu að alvarlegt atvik hafi komið upp í Lágafellslaug á sunnudaginn sem varðar fullorðinn einstakling. Strax hafi verið hringt í viðbragðsaðila sem hafi komið skjótt á staðinn.

Í fyrstu hafi málið litið út fyrir að vera hefðbundið slys en eftir að í ljós kom að atvikið reyndist alvarlegra en talið var í fyrstu hafi Mosfellsbær ákveðið að tilkynna það til lögreglu sem annist nú rannsókn þess.

„Við höfum óskað eftir því að Lögregla höfuðborgarsvæðisins rannsaki málið í ljósi alvarleika þess,“ segir í svari Arnars.

„Öryggi í almenningssundlaugum er mjög mikilvægt og ávallt efst á borði hjá sveitarfélögum og því eru flísar í votrýmum sundlauga ævinlega með mjög lágan hálkustuðul,“ bætir hann við.

Auk þess að vísa málinu til rannsóknar lögreglu hafi bæjaryfirvöld falið ytri aðila að taka út öryggi í votrýmum Lágafellslaugar sem taki til gólfefna, lýsingar, þrifefna og hvers þess annars sem getur haft áhrif á öryggi sundlaugagesta. Úttektinni á að ljúka á næstu dögum en fram að því hafi vöktun starfsmanna á votrýmum verið aukin í varúðarskyni.

RÚV greindi fyrst frá og hefur eftir Hjördísi Sigurbjartsdóttur, aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að málið sé komið á borð lögreglu en hún segir það á frumstigi.

Veistu meira um málið? Sendu okkur ábendingu á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×