Körfubolti

Líkti Cooper Flagg við Kobe Bry­ant

Siggeir Ævarsson skrifar
Cooper Flagg og Bronny James áttust við í Sumardeildinni í gær
Cooper Flagg og Bronny James áttust við í Sumardeildinni í gær Vísir/Getty

Cooper Flagg, sem valinn var fyrstur í nýliðavali NBA í sumar, þreytti frumraun sína með Dallas Mavericks í gær þegar liðið mætti Los Angeles Lakers í Sumardeildinni.

Það er óhætt að segja að Flagg hafi ekki átt neinn stjörnuleik. Hann klikkaði úr 16 af 21 skoti sínu, klikkað úr öllum fimm þristunum sem hann reyndi og fyrsta og síðasta skotið voru báðir loftboltar.

Marc Cuban, fyrrum eigandi Mavericks og stærsti aðdáandi liðsins að eigin sögn, var þó bjartsýnn og minnti á að Flagg væri mjög ungur. 

„Hann er bara 18 ára. Dóttir mín útskrifaðist úr menntaskóla í síðasta mánuði og hann er yngri en hún!“

Cuban minnti blaðamenn svo á að Kobe Bryant hefði sjálfur ekki mætt fullskapaður í deildina.

„Það tók hann svolítinn tíma að stilla sig af. Ég vil ekki leggja bölvun á Flagg með því að bera hann saman við Kobe því þeir eru ólíkir leikmenn. En Kobe kom ekki inn í deildina fullslípaður. Það tók hann tvö ár.“

Bryant var einmitt aðeins 18 ára þegar hann kom inn í deildina 1996 og skoraði aðeins tæp átta stig í leik fyrsta tímabilið sitt. Hvort Flagg sé af sama gæðaflokki og Kobe Bryant skal ósagt látið að sinni.

Maverics fóru að lokum með 87-85 sigur af hólmi en Bronny James gerði heiðarlega tilraun til að vinna leikinn fyrir Lakers sem fór forgörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×