Innlent

Grunur um að maður hafi kveikt í húsi í Reykja­nes­bæ

Agnar Már Másson skrifar
Íbúi í húisnu segir að mágranni sinn hafi verið handtekinn á vettvangi vegna málsins.
Íbúi í húisnu segir að mágranni sinn hafi verið handtekinn á vettvangi vegna málsins. Skjáskot/Aðsent

Slökkviliðið slökkti eld í heimahúsi á sunnudagsmorgun við Grænsásbraut í Ásbrú í Reykjanesbæ. Samkvæmt heimildum fréttastofu leikur grunur á um að maður hafi kveikt í húsinu. Íbúi í nágreninu segir að maður á fimmtugsaldri hafi verið handtekinn á vettvangi.

Tilkynning um eldsvoða í íbúð barst brunavörnum á sunnudagsmorgun kl. 4.40, að sögn Ingva Þórs Hákonarsonar, deildarstjóra útkallssviðs brunavarna Suðurnesja. Ingvi kvaðst ekki geta svarað hvort um íkveikju væri að ræða enda væri það á borði lögreglu að rannsaka það.

Slökkviliðið fór á staðinn með dælubíl og einn sjúkrabíl en þegar slökkviliðið kom á staðinn voru allir komnir út úr íbúðinni, að sögn Ingva.

Slökkviliðsmenn hafi strax farið inn og slökkt eldinn, sem hafi tekist hratt og örugglega. Reykur hafi aftur á móti borist inn á stigaganginn. Unnið var að reykhreinsun áður en íbúum var hleypt aftur inn.

Enginn var fluttur á spítala en einhverjar skemmdir urðu á húsnæðinu, segir Ingvi. Þá var einnig töluvert af sóti í íbúðinni eftir eldinn. Ingvi sagðist ekki geta sagt nákvæmlega hvar í íbúðinni eldurinn kom upp.

Íbúi í nágrenninu sem vill ekki láta nafns síns getið segir við fréttastofu að íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri hafi verið handtekinn á vettvangi. Íbúinn heldur því fram að maðurinn hafi reynt að kveikja í húsinu, sem er úr timbri. 

Lögregla sér um rannsókn málsins en ekki hefur tekist að ná í lögregluna á Suðurnesjum vegna eldsvoðans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×