Innlent

Loft­gæði mælast ó­holl á Akur­eyri

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Forðast ætti að vinna erfiðisvinnu eða stunda líkamsrækt utandyra þar sem loftmengun er mikil.
Forðast ætti að vinna erfiðisvinnu eða stunda líkamsrækt utandyra þar sem loftmengun er mikil. Vísir/Vilhelm

Mikil loftmengun mælist á nærri öllum loftgæðamælum á Akureyri, en er ótengd eldgosinu á Reykjanesskaga. Styrkur svifryks hefur mælst yfir mörkum frá því í nótt. 

Á vefnum Loftgæði.is í eigu Umhverfisstofnunar má sjá að hár styrkur örfíns svifryks, PM1, gerir það að verkum að loftgæði mælast óholl. Þegar loftgæði mælast óholl vegna gasmengunar af völdum eldgoss er það aftur á móti styrkur brennisteinsdíoxíðs, SO2, sem mælist hár. 

Steinunn Helgadóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands staðfestir í samtali við fréttastofu að loftmengunin sé af völdum svifryks. Líklega hafi svifrykið færst frá Evrópu eða hálendinu.

Gasmengunar frá eldgosinu við Sundhnúksgíga hefur orðið viðvart á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum. Búist er við gasmengun aftur í dag á vestanverðu Snæfellsnesi. 

Á vef Umhverfisstofnunar er mælst til þess að einstaklingar með alvarlega hjarta- eða lungnasjúkdóma forðist að vera úti þegar loftgæði mælast óholl. Forðast ætti að vinna erfiðisvinnu eða að stunda líkamsrækt utandyra þar sem loftmengun er mikil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×