Veður

Lægðar­drag yfir vestan­verðu landinu en hiti gæti náð 18 stigum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Þrátt fyrir lægðardrag, hægan vind og skúrir gæti hitinn náð átján stigum í dag.
Þrátt fyrir lægðardrag, hægan vind og skúrir gæti hitinn náð átján stigum í dag. Vísir/Vilhelm

Lægðardrag liggur yfir vestanvert landið og rignir dálítið úr því í dag. Vindar eru hægir framan af degi en síðan gengur í norðvestanstrekking með vesturströndinni. Skýjað með köflum austantil, skúrir eftir hádegi og jafnvel dembur seinnipartinn. Hiti allt að átján stig suðaustantil þegar best lætur.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.

Áttin verður vestlæg, þrír til átta metrar á sekúndu, framan af en síðdegis veður hún norðvestlæg átta til þrettán metrar á sekúndu. Hiti er á bilinu átta til átján stig, hlýjast á Suðausturlandi.

„Á morgun er komin hægfara lægð fyrir austan land og norðvestlæg átt því ríkjandi, sums staðar kaldi eða strekkingur á annesjum. Rignir norðanlands og fremur svalt í veðri, en bjart með öflum syðra og hlýtt í veðri. Lægir víða og rofar til annað kvöld, þegar dálítill hæðarhryggur kemur inn yfir landið,“ segir í hugleiðingum veðurfræðingsins.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag: Norðvestlæg átt, 5-13 m/s, en dregur úr vindi seinnipartinn. Dálítil rigning eða súld á Norður- og Austurlandi, annars bjart með köflum, en stöku síðdegisskúrir suðaustantil. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast syðst.

Á mánudag: Gengur í suðaustan 8-15 m/s með rigningu, en hægari og lengst af þurrt norðanaustanlands. Hiti 12 til 20 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á þriðjudag: Suðlæg átt, 3-8 m/s og rigning eða skúrir, en úrkomulítið norðaustanlands. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast norðaustantil.

Á miðvikudag: Útlit fyrir vestlæga átt með skúrum. Bjart norðaustan lands að mestu. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast norðaustantil.

Á fimmtudag: Útlit fyrir norðlæg átt með skúrum víða um land, en bjartviðri vestanlands. Kólnandi fyrir norðan.

Á föstudag: Líkur á hægum vindi, víða björtu og hlýju veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×