Enski boltinn

„Maður er búinn að vera á nálum“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnar Jónmundsson, framleiðslustjóri enska boltans á Sýn Sport.
Arnar Jónmundsson, framleiðslustjóri enska boltans á Sýn Sport. Vísir/VPE

Enski boltinn fer að rúlla af stað með fyrsta leik tímabilsins í kvöld. Heilmikil vinna er að baki því að hleypa verkefninu úr vör á Sýn Sport. Yfirframleiðandi þess hefur á köflum verið á nálum en hlakkar nú til að hefja tímabilið.

Ljóst varð snemmárs að enski boltinn, af mörgum talin þjóðaríþrótt Íslendinga, yrði sýndur á Sýn Sport eftir þónokkura ára fjarveru hans af stöðinni. Um er að ræða dýrasta sjónvarpsrétt landsins og miklar kröfur sem fylgja umfjöllun að utan. Því þarf að vanda til verka, líkt og Arnar Jónmundsson, yfirframleiðandi verkefnisins hefur kynnst.

„Stórt verkefni, margt fram undan og margt búið að gerast síðustu mánuði. Við byrjum stóra undirbúninginn í mars/apríl. Maður er búinn að vera á nálum,“ segir Arnar í Sportpakkanum á Sýn.

„Mjög mikil vinna. Ein mesta vinnan hefur farið í að gera þetta nýja stúdíó. Að reyna að breyta ásýnd okkar, hvernig við sýnum okkar þætti, að stækka okkur og þetta er hluti af því.“

Mikið verður lagt í þáttagerð í kringum boltann, sem hófst með upphitunarþætti fyrir tímabilið í gær. Fyrsta umferðin hefst svo í kvöld með leik Liverpool og Bournemouth en umferðin verður gerð upp í Sunnudagsmessunni í helgarlok. Auk Messunnar verða VARsjáin, Big Ben með Gumma Ben og Doc Zone með Hjörvari Hafliðasyni á dagskrá.

„Ég er spenntastur fyrir Doc Zone og það eru það allir. Við sjáum hvernig fólk er að horfa á íþróttir og hvernig það breytist. Við sjáum þetta gerast í NFL, hvernig er horft í Red Zone þar. Fólk vill horfa á allt á sama tíma og vera líka í umræðunni,“ segir Arnar. Taugarnar eru þá ekki minni hjá pródúsentum fyrir stórar útsendingar líkt og hjá fótboltamönnum fyrir stóra leiki.

„Algjörlega. Taugarnar eru þandar. Ég er með fyrirtæki á bakinu,“ segir Arnar léttur. 

„Það mikilvægasta í þessu er að vinna sem heild, við vinnum líka sem fótboltalið. Ef allir eru að gera sitt, allir eru á tánum, allir vinir og vinna saman þá verður þetta bara flott.“

Enski boltinn fer af stað í kvöld þegar Liverpool og Bournemouth mætast klukkan 19:00. Arnar mun stýra útsendingu í kringum leikinn en upphitun hefst klukkan 18:30 á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×