Innlent

Björguðu ketti sem var fastur inni í Teslu

Agnar Már Másson skrifar
Frá björgunaraðgerð dagsins.
Frá björgunaraðgerð dagsins. Aðsend

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í dag tilkynning um kött sem var fastur inni í bíl. Lögregla gaf kettinum harðfisk til að róa hann niður svo auðveldara væri að fjarlægja hann úr bifreiðinni.

Í dagbók lögreglu er málsatvikum lýst svo að lögregla hafi brugðist við tilkynningu um kött sem var fastur í bíl af tegundinni Teslu. Þegar lögregla kom á vettvang hafi eigandi bifreiðarinnar verið búinn að taka hægra framhjólið af bifreiðinni ásamt innra bretti.

„Heyra mátti mjálm koma úr bifreiðinni að framan verðu þar sem farangursrými bifreiðarinnar er,“ segir í dagbók lögreglunnar á höfðborgarsvæðinu þar sem greint er frá verkefnum embættisins frá klukkan 5 og 17 í dag.

Kötturinn fékk harðfisk.Aðsend

Það segir að hlíf í farangursrými hafi verið fjarlægð svo að hægt væri að sjá köttinn.

„Kettinum var gefin harðfiskur [svo] og hjálpaði það til við að róa köttinn svo hægt væri að ná honum úr bifreiðinni,“ skrifar lögreglan en verkefnið heyrði undir lögreglustöð eitt sem sinnir verkefnum í miðborginni.

Óljóst sé hve lengi kötturinn hafi verið í bifreiðinni en farið var með hann á lögreglustöðina þar sem haft var upp á eigandanum og kettinum komið í réttar hendur. Atvikum er ekki lýst frekar í dagbók lögreglu.

Veistu meira um málið? Áttu myndir? Sendu okkur línu á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×