Enski boltinn

Chiesa og Tel ekki valdir í Meistara­deild en Dowman gæti slegið met

Sindri Sverrisson skrifar
Max Dowman er þegar búinn að fá að spila í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð, aðeins 15 ára gamall, og gæti spilað í Meistaradeild Evrópu í haust.
Max Dowman er þegar búinn að fá að spila í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð, aðeins 15 ára gamall, og gæti spilað í Meistaradeild Evrópu í haust. Getty/David Price

Federico Chiesa, Gabriel Jesus og Mathys Tel eru á meðal þeirra sem ekki fá að spila með liðum sínum í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í haust, líkt og nýr leikmaður Chelsea. Leikmaður Arsenal gæti slegið aldursmet.

Félögin 36 sem spila í deildarkeppni Meistaradeildarinnar, sem hefst þriðjudaginn 16. september, hafa nú skilað inn 25 manna A-lista yfir leikmenn sem mega spila í vetur.

Liverpool er ekki með Chiesa á sínum lista en kantmaðurinn ungi Rio Ngumhoa var hins vegar valinn. Nýjasta stjarna liðsins, Alexander Isak, er að sjálfsögðu á listanum ásamt þeim Florian Wirtz, Hugo Ekitike, Jeremie Frimpong, Milos Kerkez, Giovanni Leoni og Giorgi Mamardashvili sem allir komu í sumar.

Facundo Buonanotte, sem kom til Chelsea að láni frá Brighton á lokadegi félagaskiptagluggans, er ekki á lista Lundúnafélagsins. Það kemur heldur ekki á óvart að Raheem Sterling er sömuleiðis utan listans.

Hið sama má segja um Jesus hjá Arsenal sem hefur verið frá keppni síðan í janúar vegna meiðsla.

Arsenal valdi aftur á móti hinn 15 ára Max Dowman á sinn lista og gæti hann því orðið yngsti leikmaður í sögu Meistaradeildarinnar. Metið á Youssoufa Moukoko sem var 16 ára og 18 daga þegar hann spilaði fyrir Dortmund árið 2020.

Tottenham er ekki með Tel á sínum lista, þrátt fyrir að hafa eignast hann í sumar eftir lán frá Bayern München. Radu Dragusin, Kota Takai, Yves Bissouma, Dejan Kulusevski og James Maddison eru ekki heldur á listanum.

Þeir Xavi Simons, Joao Palhinha, Mohammed Kudus og Randal Kolo Muani eru hins vegar á lista Tottenham eftir komuna til félagsins.

Manchester City er með fjóra markmenn á sínum lista, þar á meðal nýju mennina James Trafford og Gianluigi Donnarumma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×