Enski boltinn

Levy hættur hjá Totten­ham eftir 25 ár í starfi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hættur.
Hættur. EPA/NEIL HALL

Daniel Levy hefur sagt af sér sem formaður enska knattspyrnufélagsins Tottenham Hotspur. Levy hefur verið hæstráðandi hjá félaginu í 25 ár.

Fregnirnar koma eins og þruma úr heiðskíru lofti þar sem ekkert virtist benda til þess að hinn 63 ára gamli Levy væri að íhuga að segja upp.

„Ég er virkilega stoltur af samvinnu okkar. Við byggðum heimsklassa lið sem keppir á hæsta getustigi. Ofan á það höfum við byggt upp samfélag,“ sagði Levy í yfirlýsingunni þar sem hann greindi frá ákvörðun sinni.

„Ég var nægilega heppinn til að vinna með sumu af besta fólki knattspyrnunnar. Ég vil þakka stuðningsfólkinu sem hefur stutt við bakið á mér öll þessi ár. Þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt en þróunin hefur verið gríðarleg. Ég mun halda áfram að styðja félagið af ástríðu.“

Peter Charrington tekur að vissu leyti við starfi Levy en mun þó ekki hafa sama vald til ákvarðana og sá síðarnefndi. Þá kemur fram í yfirlýsingu félagsins að það verði engar breytingar á eignarhaldi félagsins.

Tottenham er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sex stig þegar þremur umferðum er lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×