Innlent

Segir gott að brugðist var við með valdi og NATO þurfi að sýna styrk

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, er formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, er formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Vísir/Vilhelm

Utanríkisráðuneytið fylgist náið með stöðunni í Póllandi í kjölfar atburða næturinnar og hvetur Íslendinga í Póllandi sem kunni að þurfa á aðstoð að halda að samband við borgaraþjónustuna. Formaður utanríkismálanefndar Alþingis segir gott að brugðist hafi verið við með valdi þegar rússneskir drónar voru skotnir niður í pólskri lofthelgi í nótt.

Herþotur frá Póllandi og bandamönnum þess í Atlantshafsbandalaginu skutu niður nokkra þeirra rússnesku dróna sem rufu lofthelgi landsins í nótt að sögn Donalds Tusk, forsætisráðherra landsins.

Pawel Bartoszek, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, vekur máls á stöðunni í færslu á Facebook í dag. 

„Í nótt rufu fjölmargir rússneskir árásardrónar pólska lofthelgi og voru margir þeirra skotnir niður í samstarfi pólskra, hollenskra, þýskra og ítalskra herja. Friðarviljinn Pútins ætti löngu að vera nokkuð ljós, ekki nóg með að Rússar hafi hafnað hugmyndum um vopnahlé og frystingu deilunnar, heldur hafa þeir stigmagnað árásir á Úkraínu og nú taka þeir þetta skrefinu lengra með því að senda árásardróna inn í NATO ríki,“ skrifar Pawel meðal annars.

Það sé gott að brugðist hafi verið við með valdi. NATO þurfi að sýna styrk sinn og staðfestu að mati Pawels.

Ráðuneytið vaktar stöðuna

Í skilaboðum utanríkisráðuneytisins til íslenskra ríkisborgara í Póllandi eru þeir hvattir til þess að virða tilmæli yfirvalda í Póllandi. 

„Utanríkisráðuneytið fylgist grannt með stöðu mála í Póllandi eftir atburði næturinnar og biðlar til íslenskra ríkisborgara að virða tilmæli yfirvalda og fylgjast vel með staðbundnum fjölmiðlum. Þá er vakin athygli á því að þrátt fyrir að flugvellir landsins séu opnir, megi búast við töfum á flugsamgöngum,“ segir í færslu á samfélagsmiðlum utanríkisráðuneytisins í dag.

Ef aðstoðar sé þörf sé hægt að hafa samband við neyðarnúmer borgaraþjónustunnar í síma + 354 545-0112.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×