Innlent

Sló töskunni í vélar­hlíf lögreglubifreiðar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í nótt.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti nokkuð fjölbreyttum verkefnum í nótt og hafði meðal annars afskipti af einstkling sem skemmdi lögreglubifreið með því að slá tösku sinni í vélarhlíf hennar.

Málið er í rannsókn.

Alls voru 54 mál skráð í kerfi lögreglunnar á vaktinni og tveir gistu fangageymslur í morgunsárið.

Lögreglu barst einnig tilkynning um eld sem kom upp í bifreið í akstri í póstnúmerinu 110 en ökumanninum tókst að komast út ómeiddur. Í sama hverfi var lögregla tvívegis kölluð til vegna sama einstaklingsins. Í fyrra skiptið svaf hann í stigagangi og var vísað út en í seinna skiptið var hann öskrandi fyrir utan.

Var honum ekið á dvalarstað sinn.

Í Kópavogi var leitað að einstakling sem var sagður vera að sparka í bifreiðar og í Garðabæ var tilkynnt um skemmdir á strætóstoppistöð. Þá var tilkynnt um umferðaróhapp í Hafnarfirði, þar sem fólk varð fyrir minniháttar meiðslum.

Tilkynnt var um líkamsárás í póstnúmerinu 108, sem er til rannsóknar, og einn var handtekinn eftir ofbeldistilburði í miðborginni. Þá var tilkynnt um einstakling að stela úr verslun en sá var sagður æstur og árásargjarn gagnvart starfsmönnum. Sá var einnig handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni, meðal annars maður sem ók yfir umferðareyju og annar sem ók gegn rauðu ljósi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×