Viðskipti innlent

Á ég að hætta í nú­verandi sparnaði?

Björn Berg Gunnarsson skrifar
Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi.
Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi.

72 ára gamall karlmaður spyr: Ég er hættur að vinna og er skuldlaus. En ég á peninga, rétt yfir 60 milljónir sem ég ávaxtaði á ávöxtunarreikningum bankanna og fékk hæstu vexti sem síðan skertu greiðslur frá TR. Þannig að ég fór til Íslandsbanka og þeir sjá um ávaxta peningana mína í sjóðum,en það sem gerist að á 6 mán hef ég tapað 2 miljónum. Hvað á ég að gera? Taka þetta úr fjárstýringu og setja þetta inn á ávöxtunarreikninga.

Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi ætlar að svara spurningum frá lesendum Vísis þar sem lesendum gefst kostur á að spyrja hann spurninga sem tengjast fjármálum, fjárfestingum og öðru. Sendu honum spurningu neðst í greininni.


Meðal algengustu mistaka sem fjárfestar og sparifjáreigendur gera er að færa sig vegna ávöxtunar sem þegar er komin fram. Okkur virðist því miður eðlislægt að meta ákvarðanir um hvar koma skuli peningum fyrir út frá árangri í fortíð.

Þegar fortíðin stýrir ákvörðunum

Það gæti leynst lærdómur í því að líta áratugi aftur í tímann og sjá hvernig sveiflur á mörkuðum eru og ávöxtun kemur fram yfir langt tímabil, en það sem villir okkur enn frekar sýn er að við lítum allt of skammt aftur í tímann, sjaldan lengur en eitt ár. Við mælum ekki með því að erlendir ferðamenn pakki bara stuttbuxum og skýlu fyrir vetrarfríið til Íslands þótt það hafi verið heitt og gott í sumar. Sömuleiðis ættum við ekki að leggja peninga inn á verðtryggðan reikning vegna þess að það mældist verðbólga undanfarna 12 mánuði, eða kaupa gjaldeyri þar sem krónan hefur þegar veikst. Það skiptir framtíðina engu máli hvað þegar hefur gerst, en þetta gera þó margir með slæmum árangri og sömu hegðun sjáum við þegar ávaxtað er í sjóðum.

6 mánuðir eru skammur tími

Nú veit ég ekki hvaða sjóð eða eignastýringarleið þú valdir þér en það er gott að hafa í huga að 6 mánuðir eru afar stuttur tími á verðbréfamarkaði. Ég veit að það er sárt og getur verið kvíðavaldandi að sjá eignirnar sínar lækka í verði. Að taka ákvörðun um fjárfestingarstefnu út frá 6 mánaða tímabili er þó vafasamt sama hvers kyns fjárfesting á í hlut, nema ætlunin hafi verið að ávaxta féð aðeins til 6 mánaða. Til svo skamms tíma eru verðbréf sjaldan talin henta og algengast að fé sé geymt á bankabókum.

Þá er ágætt að hafa í huga að ekkert er tapað fyrr en selt er með tapi. Gengi sjóða er reiknað daglega og hreyfist í takti við markaðsverð undirliggjandi eigna. Á hlutabréfamarkaði er ekki óalgengt að sveiflur geti varað í fleiri ár og hafa þar bæði verið fleiri og lengri slæm tímabil en á áhættuminni eignum, en þó hærri söguleg ávöxtun en víðast annars staðar. Fjárfestingar á verðbréfamarkaði eru almennt ekki hugsaðar til mjög skamms tíma og ef þú hættir þér í að velja ávöxtunarleið út frá skammtímaárangri í fortíð gætir þú verið að spila nóló í þeim leik sem kennslubækurnar segja okkur að miða við einföld lögmál með langtímanálgun í huga.

Hvar eigum við þá að hafa spariféð

Ég leyfi mér hér að deila skoðun minni á almennri nálgun varðandi fjárfestingar, en ekkert af því sem ég veit um þína hagi, gefur mér þó tilefni til að taka afstöðu til þess hvar þínum sparnaði er best fyrir komið.

Oftast er mælt með því að geyma fé með hætti sem við bæði skiljum vel og líður vel með. Með slíkt í huga er tilvalið að meta núverandi fjárfestingu, en ekki út frá árangri í fortíð. Hvar líður þér best með spariféð og hvert er markmiðið með ávöxtun þess? Er það eingöngu að ná sem mestu fé frá skattgreiðendum í gegnum almannatryggingar, án tillits til ávöxtunnar þinnar? Er markmiðið kannski að freista þess að láta sparnaðinn vaxa sem mest og sætta sig við sveiflur og nokkra áhættu? Eða er það kannski að koma á féð bæði belti og axlaböndum og leggja fyrst og fremst áherslu á að verja verðgildi þess?

Þegar þetta liggur fyrir ætti reyndur ráðgjafi í bankanum þínum að geta aðstoðað þig við að endurmeta fjárfestingarstefnuna þína héðan í frá.

Áhrifin á almannatryggingar

Þú nefnir að þú hafir fært þig af bankabók yfir í fjárstýringu hjá banka þar sem vextir hafi skert greiðslur almannatrygginga. Það er rétt að vextir hafa áhrif á þær greiðslur sem greiddar eru í gegnum Tryggingastofnun og má nánar lesa um áhrifin hér.

Með fjárfestingu í sjóði er skerðingum og skattgreiðslum frestað, þar sem enginn hagnaður hefur myndast fyrr en innleyst er. Slíkar fjárfestingar geta til langs tíma gefið okkur færi á að ávaxta áfram það fé sem annars hefði farið í fjármagnstekjuskatt (22%) og skerðingar. Þannig fást óskertir vaxtavextir þar til innleyst er, sem getur að sjálfsögðu reynst vel, þar sem fjármagnstekjuskattur er afar hár á svona háaum fjárhæðum. Ef engar fjármagnstekjur eru innleystar á tilteknu ári er þó ekki verið að nýta frítekjumark fjármagnstekna hjá skattinum auk þess sem skattgreiðslu er frestað og ekki er útilokað að fjármagnstekjuskattur verið hækkaður. Hann hefur þegar verið hækkaður um 120% frá hruni og svo virðist sem áhugi sé á enn frekari hækkunum, því miður.

Næstu skref

Það er ljóst að þér líður óþægilega með þessa fjárfestingu og árangurinn af henni hingað til. Ég er viss um að starfsfólk einkabankaþjónustu Íslandsbanka tekur vel á móti þér ef þú vilt setjast með þeim og ræða málin upp á nýtt. Vertu hreinskilinn og skýr þegar þú lýsir fyrir þeim hvað þú vilt og mundu að það er ekki bannað að skipta um skoðun, þetta eru þínir peningar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×