Fótbolti

De Bruyne lagði tvisvar upp fyrir Højlund

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Rasmus Hojlund þakkar Kevin De Bruyne kærlega fyrir sig.
Rasmus Hojlund þakkar Kevin De Bruyne kærlega fyrir sig. Giuseppe Maffia/NurPhoto via Getty Images)

Kevin De Bruyne lagði bæði mörkin upp fyrir Rasmus Højlund í 2-1 sigri Napoli gegn Sporting í annarri umferð Meistaradeildarinnar.

De Bruyne og Højlund voru sjóðheitir á Diego Maradona leikvanginum í kvöld og komust fyrst á blað undir lok fyrri hálfleiks. De Bruyne bar boltann þá upp völlinn, eftir hornspyrnu Sporting, og stakk honum á Højlund á hárréttum tíma. Højlund kláraði færið af yfirvegun og lagði boltann milli fóta markmannsins.

Þeir félagar voru svo aftur á ferðinni seint í leiknum, til að tryggja Napoli 2-1 sigur eftir að Luis Suarez hafði jafnað metin um miðjan seinni hálfleik. De Bruyne átti þá fasta sendingu á nærstöngina og Højlund kom á ferðinni til að klára færið með kollspyrnu.

Leiknum lauk því ekki með jafntefli, eins og raunin varð í leik Villareal gegn Juventus (2-2) og í leik Bayer Leverkusen gegn PSV (1-1).

Sigurinn var þó engan veginn jafn öruggur og hjá Borussia Dortmund, sem lagði Athletic Club að velli með 4-1 sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×