Körfubolti

„Vorum eigin­lega búnar að reka hana í hálf­leik“

Sindri Sverrisson skrifar
Reshawna Stone mætti með löngu lokkana sína til Keflavíkur í gær og fagnaði sigri.
Reshawna Stone mætti með löngu lokkana sína til Keflavíkur í gær og fagnaði sigri. vísir/Anton

Valskonur unnu sætan sigur gegn Keflavík í Bónus-deild kvenna í körfubolta í gærkvöld, 88-79, þrátt fyrir að hafa lent tólf stigum undir í þriðja leikhluta. Hin bandaríska Reshawna Stone átti risastóran þátt í því.

Þetta var til umræðu í Bónus Körfuboltakvöldi í gærkvöld og má sjá brot af umræðunni í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Ræddu um nýja Kanann í liði Vals

„Í fjórða leikhluta byrjar Reshawna Stone að láta finna fyrir sér. Hún var með örfá stig í hálfleik…“ sagði Ólöf Helga Pálsdóttir og Ingibjörg Jakobsdóttir tók undir:

„Við vorum eiginlega búnar að reka hana í hálfleik. Við vorum ekki alveg að skilja hvað var að frétta…“

Stone skoraði fjórtán stig í lokaleikhlutanum, þar af úr fjórum af fimm þriggja stiga skotum sínum, og endaði með 28 stig auk þess að taka sex fráköst og gefa þrjár stoðsendingar. Hún einfaldlega varð að láta til sín taka seinni hluta leiksins því forskot Keflvíkinga var orðið gott:

„Keflavík, á þessu tímabili sem þær komast yfir, settu bara í annan gír. Spiluðu geðveika vörn. Þegar þær gera það þá kemur sóknin svo auðveldlega. Ástæðan fyrir því að Valur gat ekki neitt á þessu tímabili var bara að Keflavík stjórnaði leiknum frá A til Ö. En Valur gerði svo frábærlega þegar Keflavíkurkonur urðu þreyttar, að komast aftur inn í leikinn. Ég held að það hafi verið aðalmálið, að þær voru orðnar ótrúlega þreyttar í endann. Þær misstu tvo mikilvæga leikmenn, í erlendu leikmönnunum sínum, og voru bara orðnar rosalega þreyttar,“ sagði Ingibjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×