Körfubolti

Bjóða upp á Frank Booker-árskort

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmenn fóru nýja leiðir í hönnun árskorta sinna.
Valsmenn fóru nýja leiðir í hönnun árskorta sinna. @valurkarfa

Bónus-deild karla í körfubolta fór af stað með fjórum leikjum í gærkvöldi. Valsmenn spila þó ekki sinn fyrsta leik fyrr en á morgun.

Valur fær þá Tindastól í heimsókn á Hlíðarenda en liðin hafa spilað marga stórleikina á síðustu árum.

Valsmenn kynntu árskortin sín í aðdraganda leiksins og eru búnir að færa þau í nýjan búning. Það þekkist oft að vera með gull- eða silfurkort en Valsmenn sækja nöfnin í söguna.

Þeir bjóða núna upp á bæði Frank Booker-kortið og Hollywood-stuðkortið. Bæði kortin kosta reyndar sitt.

Frank Booker-árskortið kostar 120 þúsund krónur. Það gildir á alla deildarleiki fyrir tvo, tryggir sæti á gólfi í úrslitakeppni, viðkomandi fær drykk og borgara í úrslitakeppni fyrir tvo og kortinu fylgja tvær keppnistreyjur.

Kortið er nefnt eftir Frank Booker sem spilaði þrjú tímabil með Val frá 1991 til 1994 og fór með liðið alla leið í oddaleik um titilinn vorið 1992. Sonur hans, Aron Booker, spilar með Valsliðinu í dag.

Hollywood-stuðkortið kostar 100 þúsund krónur. Það gildir á alla deildarleiki fyrir fjóra og tryggir sæti á gólfi í úrslitakeppni.

Kortið er nefnt eftir skemmtistaðnum Hollywood sem var vinsæll á gullaldarárum Valsmanna í kringum 1980 þegar Valsmenn unnu tvo Íslandsmeistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla á fjórum tímabilum. Valsmenn auglýstu líka staðinn á búningum sínum á þessum árum.

Hér má sjá frekari upplýsingar um árskort Valsmanna í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×