Íslenski boltinn

Sjáðu lygi­legar lokamínútur á Meistara­völlum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fall vofir yfir KR sem er á botninum.
Fall vofir yfir KR sem er á botninum. Vísir/Anton Brink

Það gekk á ýmsu undir lok botnslags KR og Aftureldingar í Bestu deild karla síðdegis. Þrjú mörk voru skoruð og rautt spjald fór á loft. Leiknum lauk 2-2 og fóru bæði lið ósátt frá borði.

Bæði þurftu sigur til að komast upp fyrir Vestra sem var í neðsta örugga sætinu. KR-ingar stýrðu leiknum fyrir hlé leiddu 1-0 í hálfleik þökk sé marki Eiðs Gauta Sæbjörnssonar.

Eftir hlé misstu KR-ingar tökin og allt annað var að sjá til gestanna sem voru sterkari aðilinn. 1-0 stóð þó allt fram á 90. mínútu þegar Gyrðir Hrafn Guðbrandsson gerðist brotlegur innan teigs. Fyrirliðinn Aron Elí Sævarsson jafnaði af punktinum á ögurstundu.

Klippa: Ótrúleg dramatík í Vesturbæ

KR svaraði hins vegar. Finnur Tómas Pálmason virtist brotlegur en vann boltann á Aron Sigurðarson sem gaf fyrir og fann höfuð Michaels Akoto sem skallaði boltann í netið á 93. mínútu og allt ætlaði um koll að keyra í Vesturbæ.

Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, fékk í kjölfarið rautt spjald vegna ósættis sökum meints brots í aðdraganda marksins.

KR-ingar hafa hins vegar ekki verið þekktir fyrir góðan varnarleik í sumar og héldu ekki einbeitingu. Elmar Kári Cogic tókst að jafna fyrir gestina öðru sinni. Ótrúleg dramatík í Vesturbæ, úrslitin 2-2 eftir þrjú mörk á lokakaflanum.

Liðin í afar slæmum málum. KR er á botninum með 25 stig, Afturelding með 26 fyrir ofan og Vestri með 27. Vestri mætir KA á morgun og vinni Ísfirðingar þar fara þeir langt með að fella hin tvö.

Sjón er sögu ríkari en ótrúlegan lokakafla leiksins má sjá í spilaranum að ofan í lýsingu Gunnars Ormslev.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×