Viðskipti innlent

Gætu þurft að draga úr fram­leiðslu á Grundar­tanga

Árni Sæberg skrifar
Frá járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga.
Frá járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga. Vísir/Vilhelm

Elkem hefur tilkynnt að dregið verði úr framleiðslu í járnblendiverksmiðjum félagsins í Rana í Noregi og á Grundartanga. Forstjóri Elkem á Íslandi segir að í versta falli verði slökkt á einum þriggja ofna á Grundartanga í fimmtíu til sextíu daga. Hann voni þó að ekki þurfi að koma til þess. Þá verði engum sagt upp hjá félaginu.

Í fréttatilkynningu frá Elkem segir að ákveðið hafi verið draga úr framleiðslu á kísiljárni í Noregi og á Íslandi vegna erfiðra markaðsaðstæðna. Það geti leitt til tímabundinna uppsagna starfsfólks.

Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi, segir í samtali við Vísi að um skammtímastöðvanir framleiðslu sé að ræða til þess að draga úr magni kísiljárns á markaði. 

Markaðir hafi verið erfið til lengri tíma og mikil óvissa sé uppi um hvort Evrópusambandið muni setja verndartolla á kísiljárn og þá hvort Ísland og Noregur verði undanþegin þeim.

Hún segist vona að ekki þurfi að koma til samdráttar í framleiðslunni hér á landi en ef það gerist verði það um mánaðamót nóvember og desember. Þá yrði í mesta lagi slökkt á einum þriggja ofna verksmiðjunnar og það í fimmtíu til sextíu daga.

Engum starfsmanna yrði sagt upp störfum og framleiðslustöðvunin yrði nýtt til annarra verka á borð við fræðslu starfsmanna.


Tengdar fréttir

Kísiltollar gætu vel endað fyrir gerðardómi

Lagaprófessor segir enn margt á huldu um verndartolla sem ESB hyggst beita á kísiljárn frá Noregi og Íslandi. Vel kunni að vera að málið endi fyrir gerðardómi. 

„Komið nóg af áföllum“

Fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis segir nóg komið af áföllum fyrir atvinnulífið á Akranesi og biðlar til utanríkisráðherra að beita sér af fullum krafti gegn yfirvofandi verndartollum Evrópusambandsins. Ef úr tollunum verður sé það enn eitt reiðarslagið fyrir samfélagið. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×