Innlent

Flug­um­ferðar­stjórar af­lýsa vinnu­stöðvun á morgun og laugar­dag

Eiður Þór Árnason skrifar
Arnar Hjálmsson er formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra.
Arnar Hjálmsson er formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Vísir/Vilhelm

Flugumferðarstjórar hafa aflýst fyrirhuguðum vinnustöðvunum á morgun og laugardag. Þetta staðfestir Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra í samtali við fréttastofu. Fundarhöldum sé lokið í dag og boðað hafi verið til nýs fundar í fyrramálið.

Þetta er í þriðja skipti sem flugumferðarstjórar aflýsa vinnustöðvun í yfirstandandi kjaradeilu við Samtök atvinnulífsins en hluti þeirra lagði niður störf síðasta sunnudag. 

Síðast í gær var tilkynnt að búið væri að aflýsa fyrirhugaðri vinnustöðvun í dag sem hefði að óbreyttu haft áhrif á tugi flugferða til og frá Keflavíkurflugvelli. Engar frekari vinnustöðvanir hafa verið boðaðar eftir laugardag. 

Fulltrúar Félags íslenskra flugumferðarstjóra sátu á fundum hjá Ríkissáttasemjara með Samtökum atvinnulífsins frá klukkan 10 í morgun og var fundi slitið rúmlega 22 í kvöld. Arnar segir enn mikið verk að vinna og engin skýr lausn í sjónmáli. 

„Við erum búin að aflýsa þessum tveimur vinnustöðvunum sem áttu að vera um helgina til að reyna að halda áfram að setja einhverja slóð. Við erum ekki búin að finna hana enn þá. Við héldum að við værum komin eitthvað áleiðis í dag en það gekk ekki á endanum.“ Það hafi strandað seint í kvöld. 

„Við þurfum bara að setjast niður í fyrramálið og hugsa þetta upp á nýtt aðeins, beggja megin borðsins og sjá hvert það leiðir okkur.“

Fréttin er í vinnslu og verður uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×