Erlent

Náðaði rafmyntamógúl sem hefur hjálpað rafmyntaveldi Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Changpeng Zhao, stofnandi rafmyntarisans Binance. Á hans vakt lyfti fyrirtæki ekki fingri til þess að stöðva grunsamlega fjármagnsflutninga sem tengdust þekktum hryðjuverkasamtökum og glæpamönnum.
Changpeng Zhao, stofnandi rafmyntarisans Binance. Á hans vakt lyfti fyrirtæki ekki fingri til þess að stöðva grunsamlega fjármagnsflutninga sem tengdust þekktum hryðjuverkasamtökum og glæpamönnum. AP/Ellen M. Banner/The Seattle Times

Donald Trump Bandaríkjaforseti náðaði stofnanda rafmyntafyrirtækisins Binance sem hefur stutt fjárplógsstarfsemi fjölskyldu forsetans í rafmyntum í gær. Sá hlaut fangelsisdóm fyrir peningaþvætti sem gerði glæpa- og hryðjuverkamönnum kleift að flytja fjármuni.

Hvíta húsið tilkynnti í gær að Trump hefði náðað Changpeng Zhao, stofnanda rafmyntafyrirtækisins Binance. 

Zhao afplánaði fjóra mánuði í fangelsi eftir að hann gerði sátt við bandarísk yfirvöld um að hann játaði sig sekan af ákærum um að hafa ekki komið í veg fyrir að Binance væri notað til þess að þvætta fé. Hann varð fyrsti maðurinn til að sitja í fangelsi fyrir slík brot.

Bandarísk yfirvöld sökuðu Binance meðal annars um að tilkynna ekki fleiri en 100.000 grunsamlegar færslur frá skilgreindum hryðjuverkasamtökum eins og Hamas, al-Qaeda og Ríki íslams. Þá væri Binance vettvangur viðskipta með barnaníðsefni og tæki við ágóða tölvuþrjóta sem hneppa gögn fólks og fyrirtækja í gíslingu.

Hjálpuðu Trump-fjölskyldunni með rafmyntaævintýri sitt

Trump-fjölskyldan hefur hagnast ótæpilega á eigin rafmynt sem hún hleypti af stokkunum aðeins þremur dögum áður en höfuð fjölskyldunnar tók aftur við embætti forseta í janúar. 

Bæði Zhao og Binance studdu rafmyntaævintýri forsetafjölskyldunnar með ráðum og dáð. Trump-rafmyntin öðlaðist meðal annars trúverðugleika í upphafi þegar fjárfestingasjóður í Sameinuðu arabísku furstadæmunum notaði um tveggja milljarða dollara virði af henni til þess að kaupa hlut í Binance, að sögn AP-fréttastofunnar.

Stjórnsýslufræðingar hafa ítrekað varað við hættunni á meiriháttar hagsmunaárekstrum sem séu fólgnir í rafmyntabraski Bandaríkjaforseta. Erlend ríki eða fjársterkir aðilar geti keypt sér áhrif hjá honum með því að fjárfesta í rafmynt hans sem hefur þegar malað honum gull.

COLLINS: Today you pardoned the founded of Binance. Can you explain why you did that? TRUMP: Which one was that? COLLINS: The founder of Binance TRUMP: I believe we're talking about the same person, because I do pardon a lot of people. I don't know. He was recommended by a lot of people.

[image or embed]

— Aaron Rupar (@atrupar.com) October 23, 2025 at 8:19 PM

Trump sjálfur þóttist lítið þekkja til Zhao eða Binance þegar fréttamenn spurðu hann út í náðunina í gær. Margt gott fólk hefði gefið Zhaho meðmæli.

„Fullt af fólki sagði að hann væri ekki sekur um neitt. Hann var fjóra mánuði í fangelsi og þau segja að hann hafi ekki verið sekur um neitt,“ sagði forsetinn.

Talsmaður Hvíta hússins hélt því aftur á móti fram að Zhao hefði verið fórnarlamb ofsókna fyrri ríkisstjórnar Joes Biden líkt og rafmyntaiðnaðurinn í heild.


Tengdar fréttir

Stærsta raf­mynta­kaup­höll heims sögð hafa ó­hreint mjöl í poka­horninu

Bandarísk eftirlitsstofnun sakar Binance, stærstu rafmyntakauphöll heims, og stofnanda hennar um misferli með fjármuni fjárfesta, að starfa án tilskilinna leyfa og brot á aragrúa reglna um verðbréf. Brotunum svipar til þeirra sem komu ljós í rekstri keppinautarins FTX sem varð gjaldþrota í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×