Veður

Um sau­tján stiga frost í Skaga­firði í nótt

Atli Ísleifsson skrifar
„Það var kalt á landinu í nótt og kaldast í Skagafirði.
„Það var kalt á landinu í nótt og kaldast í Skagafirði. Vísir/Vilhelm

Útlit er fyrir norðaustan golu eða kalda í dag þar sem verður skýjað með köflum og sums staðar dálítil él.

Á vef Veðurstofunnar segir að það verði austan strekkingur syðst á landinu með slyddu á þeim slóðum.

„Það var kalt á landinu í nótt og kaldast í Skagafirði. Þar mældist 16,8 stiga frost á Löngumýri og 15,4 stiga frost á Sauðárkróksflugvelli. Þar á eftir mældist 13,7 stiga frost við Mývatn. Í dag verður hitinn á sunnanverðu landinu kringum frostmark, en kaldara fyrir norðan, frost víða á bilinu 1 til 7 stig þar.

Á morgun er austlæg átt 5-13 m/s í kortunum og líkur á snjókomu með köflum á Suður- og Vesturlandi. Hægari vindur og yfirleitt þurrt í öðrum landshlutum. Hiti breytist lítið,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Breytileg átt 3-10 m/s. Dálítil él á norðanverðu landinu og líkur á snjókomu við suðvesturströndina. Þurrt veður annars staðar. Frost 0 til 8 stig, mest í innsveitum norðaustanlands.

Á miðvikudag: Norðlæg eða breytileg átt 5-13. Snjókoma með köflum á sunnanverðu landinu, en él norðantil. Áfram kalt í veðri.

Á fimmtudag: Fremur hæg breytileg átt og bjart með köflum, en líkur á éljum, einkum við ströndina. Frost 1 til 10 stig, mest inn til landsins.

Á föstudag: Hvöss austanátt með slyddu eða rigningu, talsverð úrkoma á Suðausturlandi og Austfjörðum. Hiti 2 til 8 stig.

Á laugardag og sunnudag: Stíf austlæg átt og vætusamt, einkum um landið suðaustanvert. Hiti 4 til 10 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×