Fréttir

Jamaíka býr sig undir öflugasta felli­byl sem þangað hefur ratað

Kjartan Kjartansson skrifar
Verkamenn byrgja fyrir glugga í Kingston á Jamaíka fyrir komu fellibylsins Melissu.
Verkamenn byrgja fyrir glugga í Kingston á Jamaíka fyrir komu fellibylsins Melissu. AP/Matias Delacroix

Fjórða stigs fellibylurinn Melissa sem stefnir nú á Jamaíka gæti styrkst enn frekar áður en hann gengur á land þar. Hann yrði þá öflugasti fellibylur sem dunði hefur á eyjunni í fleiri áratugi.

Fjórir eru þegar látnir af völdum Melissu á eyjunni Hispaníólu, þrír á Haítí og einn í Dóminíska lýðveldinu. Eins til viðbótar er saknað í síðarnefnda ríkinu.

Varað er við allt að 76 sentímetra úrkomu og lífshættulegum sjávarflóðum þegar Melissa nálgast Jamaíka og gengur þar á land. Auga bylsins á að fara yfir eyjuna á morgun og þaðan yfir suðaustanverða Kúbu og til Bahamaeyja á miðvikudag.

Vindhraðinn gæti náð meira en 250 kílómetrum á klukkustund, rúmum 69 metrum á sekúndu, ef spár um að Melissa nái fimmta stigi fellibylja í dag.

Yfirmaður veðurstofu Jamaíka varar við því að björgunarstarf eftir að bylurinn gengur yfir eigi eftir að ganga hægt fyrir sig vegna aurskriða, flóða og teptra vega.

Melissa yrði fyrsti fjórða stigs fellibylur sem lendir á Jamaíka á seinni árum. Síðasti stóri fellibylur sem gekk þar á land var Gilbert sem var af þriðja stigi þegar hann olli usla árið 1988.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×