Veður

Tölu­vert bjart­viðri í dag en sums staðar þoku­loft

Lovísa Arnardóttir skrifar
Smálægð er á leið til landsins og gæti verið hvasst á morgun, mánudag.
Smálægð er á leið til landsins og gæti verið hvasst á morgun, mánudag. Vísir/Vilhelm

Hæðir suður af landinu og yfir Grænlandi beina hægum vestlægum áttum yfir landið næstu daga. Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar kemur fram að það verði töluvert bjartviðri en sums staðar verður þokuloft við suður- og vesturströndina.

Aðfaranótt mánudags byrjar smálægð að myndast suður af landinu sem getur valdið allhvössum norðaustlægum vindstrengjum við Suðausturströndina á mánudaginn. Þá má einnig búast við snjókomu eða slyddu norðan- og austantil, en skúrum víða við Suður- og Vesturströndina segir í hugleiðingum.

Eftir það, á þriðjudeginum og miðvikudeginum, taka við vestlægar eða breytilegar áttir og yfirleitt hægur vindur og bjart í flestum landshlutum, en kólnar heldur, einkum inn til landsins. Á fimmtudeginum er útlit fyrir suðlægar áttir þegar lægð nálgast okkur úr vestri, með allhvössum vindstrengjum sunnan- og vestanlands. Hlýnar í veðri.

Víða er hálka eða hálkublettir samkvæmt vef Vegagerðar. Nánar hér og nánar hér um veður á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:

Norðan og norðaustan 5-13 m/s, en vestlægari syðst. Allhvasst suðaustantil um kvöldið. Snjókoma eða slydda á austanverðu landinu framan af degi, annars víða él, en léttir til á vesturhluta landsins seinnipartinn. Hiti nærri frostmarki að deginum, en kólnar síðan heldur.

Á þriðjudag:

Norðlæg átt, 8-15 m/s og dálítil él austanlands, en yfirleitt mun hægara og bjart í öðrum landshlutum. Frost 2 til 12 stig, kaldast inn til landsins.

Á miðvikudag:

Hæg breytileg átt, víða bjartviðri og talsvert frost, en dálítil él um norðanvert landið. Þykknar smám saman upp á vestanverðu landinu og hlýnar þar.

Á fimmtudag:

Útlit fyrir sunnan- og suðaustanstrekking með snjókomu eða slyddu, en síðar rigningu víða um land, en einkum þó syðra. Hlýnandi veður.

Á föstudag:

Útlit fyrir suðlægar eða breytilegar áttir, víða dálítil rigning eða slydda, en síðar snjókomu og heldur kólnandi veður.

Á laugardag:

Útlit fyrir austlægar eða breytilegar áttir. Bjart með köflum og víða snjókoma eða él, einkum suðaustantil. Hiti 0 til 4 stig við ströndina, en frost allt að 10 stigum inn til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×