Fótbolti

Eiður enn að skora mörk: „Gjöfin sem heldur á­fram að gefa“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen er farinn að skora reglulega fyrir Blackburn.
Andri Lucas Guðjohnsen er farinn að skora reglulega fyrir Blackburn. Vísir/Samsett

Eiður Smári Guðjohnsen er enn að skora mörk í enska boltanum, ef marka má samfélagsmiðla Sky Sports.

Eiður Smári lagði skóna á hilluna árið 2016, eða fyrir tæpum áratug síðan. Það virðast þó margir eiga erfitt með að gleyma tíma hans í boltanum.

Vissulega eru enn nokkrir sem bera nafnið Guðjohnsen enn að spila fótbolta. Synir Eiðs hafa verið að gera það gott úti í heimi undanfarin ár.

Einn þeirra er Andri Lucas Guðjohnsen, en hann er í dag leikmaður Blackburn í ensku B-deildinni.

Andri Lucas skoraði sigurmark Blackburn er liðið heimsótti Preston í gær og hefur hann nú skorað fjögur mörk fyrir Blackburn á tímabilinu.

Þau sem stjórna samfélagsmiðlum Sky Sports virðast þó ekki hafa verið meðvituð um það að Eiður Smári væri löngu hættur í fótbolta og að synir hans væru teknir við keflinu.

Á X-síðu Sky Sports birtist færsla í gær eftir að Andri Lucas skoraði markið með yfirskriftinni „gjöfin sem heldur áfram að gefa.“

Þar undir stóð svo: „Eiður Guðjohnsen mætir á fjærstöngina og skilar boltanum í netið.“

Andri Lucas birti svo skjáskot af færslunni á Instagram-síðu sinni, með hvatningarorðum til pabba síns, sem Eiður endurbirti í kjöfalið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×