Fótbolti

„Sem fag­maður frá­bær en enn­þá betri vinur“

Aron Guðmundsson skrifar
Guðmundur Hreiðarsson og Heimir Hallgrímsson mynda gott teymi og hafa komið víða við saman á sínum ferli.
Guðmundur Hreiðarsson og Heimir Hallgrímsson mynda gott teymi og hafa komið víða við saman á sínum ferli. Vísir/Getty

Heimir Hall­gríms­son, lands­liðsþjálfari Íra, segir mikilvægt að um­kringja sig góðu fólki sem eru ekki bara til staðar þegar vel gengur, heldur líka þegar að illa gengur. Slíkan mikilvægan vin á hann í Guð­mundi Hreiðars­syni, mark­mannsþjálfara.

Írar eru á leið í um­spil um sæti fyrir HM næsta ár og mæta Tékk­landi á úti­velli í undanúr­slitum eftir að hafa tryggt sér sæti í um­spilinu á ævin­týra­legan hátt með sigrum á Portúgal og Ung­verja­landi. Komist þeir í gegnum Tékk­land bíður úr­slita­leikur á heima­velli gegn annað hvort Dan­mörku eða Norður Makedóníu.

Eftir að Írar höfðu tryggt sér sæti í um­spilinu birti írska knatt­spyrnu­sam­bandið brot úr liðs­ræðu Heimis eftir sigurinn á Ung­verjum þar sem að hann hvatti leik­menn sína til þess að um­kringja sig fólki sem gefur þeim orku, bæði á góðum og slæmum tímum, í stað þeirra sem setja hafa aðeins sam­band þegar vel­gengni gerir vart um sig.

„Það er smá sál­fræði í þessu,“ segir Heimir að­spurður í viðtali hjá íþrótta­deild Sýnar. „Það er sagt að þú sér meðal­tal þeirra fimm manneskja sem þú um­gengst mest. Það er því eins gott að um­kringja sig góðu fólki og það er til dæmis það sem hefur hjálpað mér í lífinu, hvað ég hef haft gott fólk í kringum mig sem styður mig og rífur mig upp þegar að illa gengur. Þar finnur þú vini þína, ekki í vel­gengninni, þú finnur vini þína þegar að illa gengur og hart er í ári í lífinu. Það er þá sem þú finnur hverjir eru þínir stuðnings­menn, þínir al­vöru vinir.

„Einn af þeim sem gerir mig betri“

Heimir er vel meðvitaður um hjálpina sem felst í því að um­kringja sig stuðningsaðilum, góðum vinum, og einn slíkan á hann í mark­mannsþjálfaranum Guð­mundi Hreiðars­syni en undan­farin fimmtán ár hafa þeir starfað saman í mörgum mis­munandi verk­efnum.

Klippa: „Minn sál­fræðingur og besti vinur“

„Hann er einn af þeim sem að gerir mig betri. Kann að segja mér að hætta þessu væli og ég fæ að gráta í kjöltuna á honum. Hann er minn sál­fræðingur og besti vinur. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að um­kringja mig góðu fólki. Þú verður alltaf að hafa ein­hvern sem þú getur talað við og treyst fyrir hlutum sem þjálfari. Því þú veist aldrei, sér­stak­lega þegar að þú kemur inn í nýtt um­hverfi eins og við erum búnir að vera gera og veist ekki hverjum þú getur treyst. 

Gummi hefur verið minn besti vinur síðustu ár í þessu, þekkir mig bara og veit hvenær á að ýta á þennan takka og hinn hjá mér. Svo er hann bara magnaður fag­maður í sínu starfi. Allir þeir mark­menn sem vinna með honum, núna er hann að vinna með heimsklassa mark­mönnum, eru að springa úr ánægju með hann. Sem fag­maður frábær en sem vinur enn þá betri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×