Skoðun

Opið bréf til Krist­rúnar Frosta­dóttur, for­sætis­ráðherra Ís­lands

Daði Rafnsson, Haukur Magnússon, Kristján Vigfússon, Margrét Manda Jónsdóttir og Martin Swift skrifa

Virðulegi forsætisráðherra,

Við undirrituð, íbúar á höfuðborgarsvæðinu og meðlimir Hljóðmarkar, höfum alvarlegar áhyggjur af stefnu ríkisstjórnarinnar í nýrri samgönguáætlun. Þar er talað um að festa Reykjavíkurflugvöll í sessi og hefja uppbyggingu á nýrri flugstöð. Á sama tíma rignir inn kvörtunum vegna hljóð- og loftmengunar inn til heilbrigðiseftirlita á höfuðborgarsvæðinu. Ekkert samtal eða samstarf er við íbúa sem búa undir áhrifasvæði Reykjaflugvallar. Samtökin Hljóðmörk íhuga nú möguleikann á hópmálsókn gegn íslenska ríkinu vegna langvarandi vanrækslu stjórnvalda á að verja rétt, heilsu og öryggi íbúa.

Stjórnmálafólk hefur brugðist landsmönnum

Íbúasamtökin Hljóðmörk hafa margoft hitt hagsmunaaðila og stjórnsýslu sem að flugvellinum koma og hafa aðilar tekið undir og verið sammála stefnumálum okkar sem má flokka í þrennt: 1. Að óþarfa þyrluflugi með ferðafólk verði fundinn nýr staður 2. Að einkaþotum auðkýfinga verði gert að lenda í Keflavík 3. Að staðið verði við samning ríkis og borgarinnar um að finna kennslu- og áhugamanna flugi nýja aðstöðu utan Reykjavíkur (skv. samningi frá 2013).

Stjórnvöld hafa í áratugi afhent sérhagsmunahópum ákvörðunarvald yfir málefnum flugvallarins. Í stað þess að verja hagsmuni almennings hefur vald og áhrif færst í hendur fárra aðila sem hafa komist upp með að stýra umræðunni og stefnumótuninni. Þrátt fyrir að staðsetning flugvallarins hafi verið umdeild frá upphafi, hefur ekki verið sýndur vilji til að leysa málið á málefnalegan og faglegan hátt.

Íbúar hafa þurft að berjast fyrir hverri einustu úrbót, til dæmis þegar næturflug var loks stöðvað eftir langvarandi mótmæli og þrýsting frá fólki sem einfaldlega vildi fá svefnfrið fyrir sig og börnin sín. Nú berjast íbúar fyrir brottflutningi óþarfa flugumferðar frá Reykjavíkurflugvelli. Þeirri tegund flugumferðar sem er hættulegust fyrir okkur íbúa með hærri flugslysatíðni og gríðarlegri hávaða- og loftmengun.

Óöryggi, mengun og ábyrgðarleysi

Það sem hefur komið okkur í samtökunum mest á óvart er hversu óöruggur og mengandi völlurinn er og hvernig fáum, en vel tengdum einstaklingum, í flugsamfélaginu hefur tekist að kljúfa þjóðina á meðan stjórnmálafólk varpar frá sér allri ábyrgð.

Samgöngustofa sem ber lagalega ábyrgð á flugumferð yfir landinu er að miklu leyti stýrt af fulltrúum sérhagsmunahópa flugmála en á sama tíma fá íbúar engan fulltrúa við borðið. Samskipti okkar við stofnunina staðfesta að hagsmunir íbúa skipta stofnunina ekki máli og þvert á móti stefnt er að því að beina enn meiri flugumferð yfir íbúa byggðir landsins og helstu stofnanir ríkisins — grunnskóla, leikskóla, sjúkrahús og útivistarsvæði.

Við spyrjum: Hvernig í ósköpunum getur þetta talist ásættanlegt?

Reykjavík er ein flugmengaðasta borg Evrópu og enginn ber ábyrgð

Við búum í einni flugmenguðustu borg Evrópu. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og Kópavogs hafa fengið gríðarlega mikið af kvörtunum vegna hávaða sl ár. Kennsluvélar hringsóla yfir íbúabyggð tugum sinnum á dag frá morgni fram á kvöld. Þyrluferðir fyrir sterkefnaða ferðamenn og einkaþotur ríkasta fólks í heimi hafa forgang í miðborg Reykjavíkur, á gjaldskrá sem er lægri en við borgum fyrir bílastæði á sama stað.

Meðlimir Hljóðmarkar í flestum hverfum kvarta hástöfum yfir því að þessi mengun eyðileggi jarðarfarir, útivist, sundferðir, tónleika, afmæli og brúðkaup. ISAVIA og samgönguráðuneytið vita að þessi mengun og þetta viðstöðulausa ónæði hefur alvarleg áhrif á lýðheilsu, en gera ekki neitt.

Þá spyrjum við: Hvaða hagsmunum telja þessir aðilar sig vera að þjóna?

Opinberar mælingar skortir og WHO varar við

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin skilgreinir hávaðamengun sem alvarlegt lýðheilsuvandamál og samt búa tugþúsundir Íslendinga við hávaða sem fer langt yfir viðmiðunarmörk.

Meðlimir okkar hafa ítrekað mælt yfir 60 dB innandyra og yfir 80 dB utandyra. En ótrúlegast í þessu öllu er að engin opinber hávaðamæling fer fram af vellinum. Reykjavíkurflugvöllur notast við reiknuð gildi til að meta hljóðmengun, eins konar áætlanir gerðar af rekstraraðilum sjálfum.

Við spyrjum: Af hverju er þetta látið viðgangast?

Áform stjórnvalda: Að festa vanda í sessi

Ríkisstjórnin undir forystu Eyjólfs Árnasonar hefur nú kynnt áform um að festa flugvöllinn í sessi þrátt fyrir að hann starfi á fjölmörgum undanþágum frá öryggisreglum og þrátt fyrir að starfsleyfið sé í uppnámi vegna mengunar. Að ráðherrann sé fyrrverandi starfsmaður ISAVIA gerir málið enn vafasamara. Hvaða hagsmunum er hann tilbúinn að fórna til að standa vörð um forréttindi fámenns hóps? Á fundi samtakanna með ráðherra komum við því skýrt á framfæri að eina leiðin til að skapa sátt um Reykjavíkurflugvöll væri með brotthvarfi allrar óöruggustu flugumferðarinnar yfir þéttbýli.

Forsætisráðherra, þér hefur verið tíðrætt um fagmennsku, ábyrgð og traust í stjórnmálum. Því er óhjákvæmilegt að spyrja: Hvernig getur ríkisstjórnin staðið fyrir því að fara í stórtæka uppbyggingu á Reykjavíkurflugvelli án þess að tryggja viðunandi eftirlit og stjórnarhætti í málefnum er varða flugvöllinn?

Lokaorð: Ríkið ber ábyrgð

Þér hefur verið tíðrætt um að þú sért „sátt“ við stöðuna þar sem aðrir kostir séu ekki tilbúnir. Stjórnmálafólk ber ábyrgð á því að aðrir kostir séu ekki tilbúnir, þið eruð með boltann! Það er ekki valkostur að sitja aðgerðalaus þegar lýðheilsa og öryggi tugþúsunda íbúa er í húfi.

Ef kennsluvél hrapar á Barnaskóla Kársness, ef flugfari bregst yfir Alþingi, Ráðhúsi Reykjavíkur eða Hljómskálagarðinum, þá mun enginn geta sagt að aðvaranir hafi ekki verið gefnar. Þá mun þín ríkisstjórn bera ábyrgð á að hafa ekki tryggt öryggi íbúa með viðunandi hætti.

Við krefjumst þess að lýðheilsa og öryggi almennings verði sett ofar forréttindum fárra.

Virðingarfyllst,

Íbúar höfuðborgarsvæðisins og meðlimir Hljóðmarkar.




Skoðun

Skoðun

Ekki líta undan

Reyn Alpha Magnúsdóttir,Bjarndís Helga Tómasdóttir skrifar

Sjá meira


×