Innlent

Stormur gæti skollið á landinu á að­fanga­dag

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. vísir

Veðurfræðingur segir of snemmt að segja til um hvort jólin í ár verði rauð eða hvít. Hann tekur þó fram að hæð verður yfir landinu með rólindis veðri eftir jóladag en búast megi við því að hvöss suðvestanátt lendi á landinu á aðfangadag.

„Það er að eiga sér stað umbreyting í veðurkerfunum og það tekur við mikið háþrýstisvæði með rólegu veðri en á meðan á þeirri umbreytingu stendur sem mun hitta að öllum líkindum á aðfangadag og fram að jóladag. Þá er reiknað með því að það verði hvöss suðvestanátt með leysingu og hita á landinu. Því við vorum að tala um Vík í þessu samhengi. það hefur í för með sér að það verður alda sunnan úr hafi sem skellur á suðurströndinni. Það er held ég óhjákvæmilegt,“ segir Einar Sveinbjörnsson í samtali við fréttastofu. 

Búast má við ágætu veðri yfir hátíðirnar. Spurður hvort það megi búast við stormi eða veðurviðvörunum á aðfangadag og jóladag segir hann:

„Hann verður sennilega sunnanstæður. Það er ekki gott að segja hvað verður. Aðalóvissan er hversu lengi þetta er að fara yfir. Við verðum undir mikilli háloftaröft sem er hægfara. Þetta gæti staðið á annan sólarhringinn en þetta gæti líka gengið yfir á fjórum til sex klukkustundum. Í því liggur óvissan.“

Hann hvetur fólk til að fylgjast vel með veðurspám áður en lagt er í ferðalag um jólin. 

Eru allar líkur á að það verði rauð jól hjá okkur?

 „Það er hins vegar meiri óvissa um það. Það eru allavega líkur fyrir því á aðfangadag að það verði hlýindi um allt land, hvað svo sem verður á jóladag og annan í jólum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×