Sport

Sárnaði hatursskilaboð sem sonurinn fékk

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stephen Bunting nýtur mikilla vinsælda en hælbítarnir eru þó til staðar.
Stephen Bunting nýtur mikilla vinsælda en hælbítarnir eru þó til staðar. getty/James Fearn

Pílukastarinn vinsæli, Stephen Bunting, hefur greint frá því að syni hans hafi borist hatursskilaboð eftir að hann féll úr leik á HM.

Bunting tapaði óvænt fyrir James Hurrell, 4-3, í 3. umferð heimsmeistaramótsins á laugardaginn.

Bunting er afar vinsæll keppandi en það fór öfugt ofan í einhverja þegar hann kallaði sig meistara fólksins eftir sigurinn á Sebastian Bialecki í 1. umferð.

Hinn fertugi Bunting hefur nú greint frá því að sonur hans, Toby, hafi fengið hatursskilaboð eftir að hann féll úr leik á HM.

„Fjölskyldan sér neikvæðu skilaboðin og gerir sitt besta til að ég sjái þau ekki. Jafnvel Toby hefur fengið hatur frá nettröllum sem særir okkur sem fjölskyldu. Toby er einn indælasti krakki sem þú getur hitt og ég mun gera meira samfélagsmiðlaefni með honum á næsta ári,“ skrifaði Bunting á X.

Hann þakkaði þó fyrir stuðninginn sem hann hefur fengið á samfélagsmiðlum, sagði að hann teldi meira en neikvæðu athugasemdirnar og brýndi hann áfram í baráttunni.

Bunting er í 4. sæti heimslistans og hefur tvívegis komist í undanúrslit á HM. Þá vann hann Masters-mótið á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×