Handbolti

Snorri Steinn: Erum komnir með meira í vopna­búrið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Snorri Steinn mun undirbúa íslenska liðið af kostgæfni fyrir leik dagsins.
Snorri Steinn mun undirbúa íslenska liðið af kostgæfni fyrir leik dagsins.

„Staðan er eins. Þeir sem spiluðu eru heilir en Einar Þorsteinn er enn veikur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari fyrir æfingu strákanna okkar í gær.

Einar Þorsteinn Ólafsson veiktist á föstudag og var að sögn talsvert mikið veikur. Hann hefur verið í einangrun síðan. Snorri viðurkenndi að eðlilega hefði verið smá ótti að fleiri myndu veikjast en í gær voru allir aðrir enn við hestaheilsu.

Klippa: Snorri klár fyrir Pólverjana

Í dag er komið að leik gegn Pólverjum. Þeir hafa verið í feluleik fram að móti en Snorri sá þá spila gegn Ungverjum þar sem Pólland steinlá.

„Þeir voru mikið að spila 7 á 6 og hafa verið í því áður. Við erum með ágætis mynd af þeim. Svo er í lagi að eitthvað sé óljóst. Þetta verður allt öðruvísi andstæðingur. Öðruvísi stærð og þyngd. Númer eitt, tvö og þrjú er að við séum með okkar á hreinu. Er við náum að gera það sem við viljum gera þá erum við góðir,“ sagði landsliðsþjálfarinn ákveðinn en sér hann fram á að spila líka 7 á 6 og jafnvel prófa aftur að vera með fjögurra manna útilínu?

„Ég er ekki alveg kominn svona langt. Auðvitað óska ég þess að hefðbundinn sóknarleikur gangi rosalega vel og það verði ekkert vesen. Þetta er þá eitthvað sem er komið í okkar vopnabúr og við getum gripið til.“

Byrjun Íslands á mótinu var fullkomin og það hlýtur að gefa byr í seglin fyrir framhaldið.

„Það segir sig sjálft. Vilja allir byrja svona. Mér fannst góð holning á okkur. Það er samt ekki tími til að vera glaður eða fúll. Það er bara leiser fókus á verkefnið. Við þurfum sömu frammistöðu og jafnvel betri til þess að vinna Pólverja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×