Handbolti

Danir svöruðu fyrir Portúgalstapið og unnu Evrópumeistarana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mathias Gidsel var frábær í seinni hálfleiknum í kvöld og átti mikinn þátt í sigrinum á Frökkum.
Mathias Gidsel var frábær í seinni hálfleiknum í kvöld og átti mikinn þátt í sigrinum á Frökkum. EPA/Bo Amstrup

Danir stimpluðu sig aftur inn í Evrópumótið í handbolta með þriggja marka sigri á Evrópumeisturum Frakka í kvöld, 32-29.

Það gekk mikið á í Herning í kvöld og liðin skiptust margoft á því að hafa forystuna. Leikurinn var frábær handboltaleikur og mögulega forsmekkur að úrslitaleiknum.

Úrslitin þýða að Þjóðverjar eru einir á toppnum með fjögur stig en Danmörk, Frakkland, Portúgal og Noregur eru öll með tvö stig.

Danir voru sterkari á lokakaflanum og tryggðu sér sigur með því að enda leikinn á 8-3 spretti.

Miklu munaði um það að markvörðurinn Emil Nielsen og stórstjarnan Mathias Gidsel sýndu sínar bestu hliðar í seinni hálfleiknum. Gidsel endaði með níu mörk í leiknum, Simon Pytlick skoraði átta mörk og Emil Jakobsen var með sex mörk. Aymeric Minne skoraði sjö mörk fyrir Frakka.

Frakkar skoruðu þrjú af fyrstu fjórum mörkum leiksins (3-1) en Danir komust yfir í bæði 5-4 og 6-5. Franska liðið tók þá aftur frumkvæðið, komst tveimur mörkum yfir, 10-8, 11-9 og 12-10 en leiddi síðan með einu marki í hálfleik, 12-11.

Danir byrjuðu seinni hálfleikinn vel og þar munaði mikið um að Mathias Gidsel væri kominn í gang.

Gidsel skoraði fjögur mörk á fyrstu ellefu mínútum hálfleiksins, Danir unnu þær 8-5 og voru komnir tveimur mörkum yfir. Frakkarnir náðu að jafna metin aftur og spennan var mikil þar til Danir brunuðu fram úr á lokamínútum leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×