Körfubolti

Doncic skoraði 46 stig en þjálfarinn segir hann reyna á þolin­mæðina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luka Doncic setti niður átta þrista gegn Chicago Bulls.
Luka Doncic setti niður átta þrista gegn Chicago Bulls. getty/Patrick McDermott

Luka Doncic halda engin bönd um þessar mundir. Hann skoraði 46 stig þegar Los Angeles Lakers sigraði Chicago Bulls, 118-129, á útivelli í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Doncic er stigahæstur í NBA með 33,8 stig að meðaltali í leik og enginn leikmaður í sögu Lakers hefur verið sneggri til að skora tvö þúsund stig fyrir liðið. Slóveninn hefur leikið 65 leiki fyrir Lakers síðan hann kom í skiptum frá Dallas Mavericks fyrir um ári.

Auk þess að skora 46 stig tók Doncic sjö fráköst og gaf tólf stoðsendingar í leiknum í nótt. Hann hitti úr átta af tólf þriggja stiga skotum sínum.

JJ Redick, þjálfari Lakers, segir að þrátt fyrir alla sína hæfileika og frábæra spilamennsku sé Doncic stundum nálægt því að ganga fram af honum.

„Hann er vél sem er í fullum gangi. Hann vill skapa á vellinum og það er meðal þess sem gerir hann að frábærum leikmanni,“ sagði Redick.

„Því ég spilaði með honum hef ég nokkuð góðan skilning á því þótt það reyni stundum á þolinmæðina. Þú lifir með sumu af því sem hann gerir því útkoman er oftar en ekki góð.“

LeBron James skoraði 24 stig fyrir Lakers gegn Bulls í nótt og Rui Hachimura 23 stig.

Lakers, sem hefur unnið sextán af 25 útileikjum sínum á tímabilinu, er í 5. sæti Vesturdeildarinnar. Liðið er með 28 sigra og sautján töp.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×