Sport

Halda styrktar­mót til að greiða leið Alexanders til Ally Pally

Sindri Sverrisson skrifar
Alexander Veigar ætlar sér langt og stefnir á HM, þar sem Luke Littler hefur fagnað sigri síðustu tvö ár í röð. Þeir mættust á HM ungmenna í október.
Alexander Veigar ætlar sér langt og stefnir á HM, þar sem Luke Littler hefur fagnað sigri síðustu tvö ár í röð. Þeir mættust á HM ungmenna í október.

Pílukastarinn Alexander Veigar Þorvaldsson hefur sett stefnuna á að komast á sjálft heimsmeistaramótið í Alexandra Palace en leiðin þangað er löng, torfær og kostnaðarsöm.

Til að hjálpa Alexander Veigari í áttina að HM hefur verið boðað til sérstaks styrktarmóts í bæði pílu og golfi á staðnum Nítjándu við Bíldshöfða annað kvöld.

Alexander Veigar hefur verið í fremstu röð í pílukastinu á Íslandi síðustu ár og vann nú síðast til að mynda Úrvalsdeildina með sigri á Haraldi Egilssyni í desember, fyrir troðfullum sal á Bullseye.

Hann hyggur hins vegar á frekari alþjóðlegan árangur en segir ljóst að ferlið við að komast á HM sé bæði langt og flókið.

„Það eru margar leiðir til að komast inn á mótið, sérstaklega eftir að það var stækkað í 128 manns í fyrra. Tvær helstu leiðirnar sem ég er að láta reyna á felast í að reyna að komast inn á PDC túrinn. 

Það er mótavika sem er haldin í janúar á hverju ári og heitir Q school. Það eru 16 manns sem fengu tour card í ár af 512 í Evrópu. Það að komast inn á túrinn eykur líkurnar töluvert og er ég fyrsti og eini Íslendingurinn sem hefur komist í final stage í Q school,“ sagði Alexander.

Pílukastarar á borð við Charlie Manby, sem komst í 16-manna úrslitin á HM um jólin, og Jeffrey de Zwaan tryggðu sig fyrr í þessum mánuði inn á PDC mótaröðina á meðan að til að mynda Fallon Sherrock og Andreas Harrysson þurftu, líkt og Alexander, að sætta sig við að missa af sæti þar.

Luke Littler og Gian van Veen voru báðir á HM ungmenna í haust líkt og Alexander Veigar. Þar endaði Van Veen á að vinna mótið en Littler vann svo HM fullorðinna í Ally Pally, annað árið í röð.Getty/Rafah Abduallah

„Síðan er það hin leiðin sem er í gegnum sérstök mót eins og PDC Nordic og Baltic. Það er mótaröð innan PDC sambandsins og fá þar efstu tveir hvert árs sæti í Ally Pally. Í heildina eru þetta sirka sex mót á ári [sem Alexander getur komist á HM í gegnum] í alls konar flokkum, eins og til dæmis PDC World Youth Championship. Það er heimsmeistaramót U24 ára. Ég vann mér inn rétt til þess að keppa þar í október síðastliðnum með því að vera annar tveggja efstu í U24-flokki á PDC Nordic og Baltic túrnum,“ sagði Alexander.

Alexander mætti einmitt sjálfum heimsmeistaranum, Luke Littler, á HM ungmenna í október og vann tvo leggi gegn honum en tapaði 5-2. Það er hins vegar aðeins sigurvegari HM ungmenna sem kemst beint á HM í Ally Pally og var það Gian van Veen í þetta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×