Fréttablaðið greindi frá því í október að Útlendingastofnun hefði farið fram á lögreglurannsókn á sambandi hjónanna vegna gruns um að það væri málamyndahjónaband. Tæpu ári áður en beiðnin frá Útlendingastofnun barst til lögreglunnar höfðu hjónin eignast dóttur hér á landi og notið heilbrigðisþjónustu á Landspítalanum vegna þess. Þau greiddu fullt verð fyrir fæðingu dóttur sinnar vegna þess að þrátt fyrir að faðirinn hefði hér varanlegt landvistarleyfi þá var móðirin ekki komin með slíkt. Vegna reikningsins hittu þau félagsráðgjafa til að útskýra stöðu dvalarleyfisumsóknar Thi Thuy.