

Meistaradeildin
Keppni hinna bestu í Evrópu.
Leikirnir

United fordæmir ofbeldi rómversku lögreglunnar
Forráðamenn knattspyrnufélagsins Manchester United hafa fordæmt vinnubrögð lögreglu á leik Roma og Manchester United í gærkvöldi og saka lögleglumenn á leikvanginum um að bregðast og hart við ólátum stuðningsmanna og beita þá ofbelti. Ellefu stuðningsmenn enska liðsins slösuðust í átökunum og þar af þurftu tveir að liggja á sjúkrahúsi í nótt.

Scholes fær eins leiks bann
Miðjumaðurinn Paul Scholes hjá Manchester United þarf að taka út eins leiks bann fyrir rauða spjaldið sem hann fékk að líta í leiknum gegn Roma í gær. Hann var þegar kominn í eins leiks bann vegna gulra spjalda þegar hann fékk fyrri áminninguna í gær, en hann verður enn einu gulu spjaldi frá banni þegar hann snýr til baka úr banninu eftir síðari leikinn við Roma.

Rooney: Einn erfiðasti leikur sem ég hef spilað
Wayne Rooney var mjög sáttur við úrslitin á Ítalíu í kvöld þó hans menn í Manchester United hafi tapað 2-1. Rooney skoraði fyrsta mark sitt í 18 Evrópuleikjum og hrósaði félögum sínum fyrir undirbúninginn. Ekki þarf að taka það fram að hann er fullur sjálfstrausts fyrir síðari leikinn á Old Trafford.

Ferguson: Við vorum tíu gegn tólf
Sir Alex Ferguson sagðist í kvöld ánægður með leik sinna manna í Manchester United í Róm þrátt fyrir 2-1 tap. Hann sagði lið sitt á köflum hafa verið tveimur leikmönnum færri og vildi þar meina að dómarinn hafi verið í liði með Rómverjum.

Mourinho: Einvígið er galopið
Jose Mourinho lét ekki hugfallast þó hans menn í Chelsea hefðu aðeins náð jafntefli við Valencia í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum á Stamford Bridge í kvöld. Hann segir einvígið opið í báða enda og hefur fulla trú á að hans menn geti farið til Spánar og klárað dæmið. John Terry treystir á að Didier Drogba muni reynast enska liðinu drjúgur í síðari leiknum.

Roma lagði Manchester United
Roma hafði betur 2-1 gegn Manchester United á heimavelli sínum í Róm í kvöld þegar liðin mættust í fyrri leik sínum í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Paul Scholes lét reka sig af velli í fyrri hálfleik og Rodrigo Taddei kom Roma í 1-0 skömmu fyrir hlé. Wayne Rooney jafnaði fyrir United á 60. mínútu en aðeins nokkrum mínútum síðar tryggði Mirko Vucinic Rómverjum sigurinn. Heimamenn hefðu ef til vill átt að gera betur í leiknum en fara með eins marks forystu til Englands í síðari leikinn.

Jafnt hjá Chelsea og Valencia
Chelsea og Valencia skildu jöfn 1-1 í fyrri leik sínum í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á Stamford Bridge í kvöld. Gestirnir náðu forystu í leiknum með glæsilegu marki Silva í fyrri hálfleik, en Didier Drogba jafnaði í upphafi þess síðari. Það er því ljóst að enska liðsins bíður erfitt verkefni í síðari leiknum á Spáni.
Rómverjar leiða á ný
Roma er komið yfir á ný gegn Manchester United. Edwin van der Sar gerði vel að verja þrumuskot frá Mancini og sló boltann út í teiginn, en þar var það Mirko Vucinic sem hirti frákastið og þrumaði boltanum í netið. 2-1 fyrir Roma og um 20 mínútur til leiksloka.

Rooney jafnar fyrir United
Wayne Rooney er búinn að jafna metin fyrir Manchester United gegn Roma á útivelli 1-1. Markið kom á 60. mínútu eftir glæsilega skyndisókn gestanna. Þetta var fyrsta mark hans í Meistaradeildinni í 17 leikjum - síðan hann skoraði þrennu í keppninni árið 2004.
Drogba jafnar fyrir Chelsea
Didier Drogba er búinn að jafna leikinn í 1-1 fyrir Chelsea gegn Valencia strax í upphafi síðari hálfleiks. Markið skoraði hann með laglegum skalla yfir markvörð spænska liðsins eftir sendingu frá Ashley Cole. Nú rétt í þessu var Vicente að fara meiddur af velli hjá Valencia. Staðan í Róm er enn 1-0 fyrir heimamenn gegn Manchester United - sem leikur með 10 menn eftir að Paul Scholes var rekinn af velli.
Ólæti á pöllunum í Róm
Óeirðir brutust út á áhorfendapöllunum á Ólympíuleikvanginum í Róm eftir að Paul Scholes var rekinn af velli í leik Roma og Manchester United. Stuðningsmenn liðanna skutu flugeldum á milli sín og að lokum réðust Rómverjarnir að ensku stuðningsmönnunum. Lögregla blandaði sér í átökin og mátti sjá nokkur blóðug andlit eftir að gæslumenn náðu að róa stuðningsmennina niður.

Ensku liðin undir í hálfleik
Chelsea og Manchester United eru undir 1-0 þegar flautað hefur verið til hálfleiks í viðureignunum tveimur sem standa yfir í Meistaradeildinni. Chelsea er 1-0 undir á heimavelli gegn Valencia þar sem Silva skoraði á 30. mínútu og Manchester United er í hvað verri málum í Róm þar sem heimamenn hafi yfir 1-0 með marki Taddei skömmu fyrir hlé. Þá var Paul Scholes vikið af leikvelli eftir að hann fékk sitt annað gula spjald og gestirnir því manni færri.

Solskjær í byrjunarliði United
Leikur Roma og Manchester United verður sýndur beint á sjónvarpsstöðinni Sýn klukkan 18:30. Ole Gunnar Solskjær er í byrjunarliði enska liðsins og þeir Louis Saha og Darren Fletcher eru óvænt á varamannabekknum.

Van Buyten: Milan er betra á útivöllum
Belgíski landsliðsmaðurinn Daniel van Buyten var hetja Bayern Munchen í gær þegar liðið náði fræknu 2-2 jafntefli við AC Milan á útivelli í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Van Buyten skoraði bæði mörk þýska liðsins og kom því í vænlega stöðu fyrir síðari leikinn á heimavelli.

Kromkamp: Þetta er búið
Jan Kromkamp, leikmaður PSV Eindhoven, viðurkennir að einvígið við Liverpool í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar sé þegar búið þó liðin eigi eftir að mætast öðru sinni á Anfield í Liverpool. Enska liðið vann öruggan sigur í fyrri leiknum í Hollandi í gærkvöld, 3-0.

Giggs: Vonbrigði ef við vinnum ekki Meistaradeildina
Vængmaðurinn Ryan Giggs hjá Manchester United segir að allt annað en að vinna Meistaradeildina í ár yrðu vonbrigði fyrir félagið. Giggs er einn sigursælasti knattspyrnumaður í sögu Manchester United og vill ólmur bæta enn einum titlinum í safnið í vor.

Edu: Við erum ekki hræddir við Chelsea
Brasilíski miðjumaðurinn Edu hjá Valencia, sem áður lék í fjögur ár með Arsenal, segir spænska liðið alls ekki hrætt við Chelsea fyrir leik liðanna á Stamford Bridge í kvöld. Edu er meiddur og getur ekki tekið þátt í leiknum, sem sýndur verður beint á Sýn Extra klukkan 18:30.

Ferguson: Við verðum að skora á útivelli
Sir Alex Ferguson segir að hans menn í Manchester United verði nauðsynlega að ná að skora á útivelli í kvöld þegar þeir mæta Roma í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í Róm.

Borgarstjórinn í Róm ósáttur við hræðsluáróður Man. Utd
Borgarstjórinn í Róm, Walter Veltroni, er langt frá því að vera sáttur við forráðamenn Manchester United. Ástæðan er að enska félagið varaði stuðningsmenn sína við því að vera á helstu ferðamannastöðunum í Róm þar sem þeir ættu á hættu að vera lamdir af öfgafullum stuðningsmönnum Rómarliðsins.

Aurelio er með slitna hásin
Fabio Aurelio, leikmaður Liverpool, hefur spilað sinn síðasta leik fyrir félagið á tímabilinu. Hann varð fyrir því óláni að slíta hásin í leiknum við PSV í Hollandi í kvöld og var honum skipt sárþjáðum af velli. Grunur lék strax á um að hann væri með slitna hásin og sá grunur hefur nú verið staðfestur. Þetta þýðir væntanlega að Brasilíumaðurinn verður frá keppni eitthvað fram á næstu leiktíð.

Hargreaves: Við erum í betri stöðu
Enski landsliðsmaðurinn Owen Hargreaves hjá Bayern Munchen sagði sína menn svekkta með vítaspyrnudóminn sem færði AC Milan annað markið í 2-2 jafntefli liðanna í kvöld. Hann segir þýska liðið þó klárlega í vænlegri stöðu fyrir síðari leikinn í Munchen.

Crouch: Við erum að toppa á réttum tíma
Peter Crouch skoraði þriðja og síðasta mark Liverpool í kvöld þegar liðið burstaði PSV Eindhoven 3-0 í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og komst í mjög vænlega stöðu fyrir síðari leikinn. Crouch sagði sína menn hafa virkað mjög ferska í kvöld og telur liðið vera að toppa á hárréttum tíma, en fyrirliðinn Steven Gerrard vill ekki fara að hugsa um næstu umferðina strax.

Dramatík í Mílanó
AC Milan og Bayern Munchen skildu jöfn 2-2 í fyrri leik sínum í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Það var varnarmaðurinn Daniel van Buyten sem var hetja gestanna þegar hann skoraði jöfnunarmark liðsins nokkrum sekúndum áður en flautað var af. Hann skoraði bæði mörk þýska liðsins í kvöld eftir að Pirlo og Kaka höfðu tvisvar komið Milan í vænlega stöðu.

Auðveldur sigur Liverpool á PSV
Liverpool er komið með annan fótinn í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu eftir fádæma öruggan 3-0 útisigur á hollenska liðinu PSV Eindhoven í kvöld. Steven Gerrard, John Arne Riise og Peter Crouch skoruðu mörk enska liðsins og var sigurinn aldrei í hættu. Síðari leikur liðanna á Anfield ætti því að vera formsatriði fyrir Liverpool eftir þennan frábæra sigur í kvöld.
Kaka kemur Milan yfir á ný
Brasilíski miðjumaðurinn Kaka er búinn að koma AC Milan yfir á ný gegn Bayern 2-1 í leik liðanna á San Siro. Markið var það sjöunda hjá Kaka í Meistaradeildinni í vetur, en það skoraði hann úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. Vítaspyrnudómurinn var afar strangur og hætt við að Þjóðverjarnir eigi eftir að láta í sér heyra eftir leikinn, enda óttuðust þeir mjög reynsluleysi rússneska dómarans fyrir viðureignina í kvöld.
Bayern jafnar í Mílanó
Bayern Munchen er búið að jafna metin í 1-1 gegn AC Milan í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Það var Daniel van Buyten sem skoraði þetta gríðarlega þýðingarmikla mark fyrir þýska liðið og ljóst að heimamenn verða að sækja stíft síðustu 10 mínúturnar í leiknum.
Crouch klárar dæmið fyrir Liverpool
Liverpool er komið í 3-0 gegn PSV í Meistaradeildinni. Markið skoraði Peter Crouch með laglegum skalla eftir fyrirgjöf Steve Finnan frá hægri og nú er útlitið orðið mjög dökkt hjá hollenska liðinu, sem á útileikinn eftir á Anfield. Markið kom á 63. mínútu, en staðan í leik AC Milan og Bayern er enn 1-0 fyrir Milan.
Þrumufleygur frá Riise - Liverpool komið í 2-0
Norðmaðurinn John Arne Riise hefur komið Liverpool í 2-0 gegn PSV í Hollandi. Markið kom í upphafi síðari hálfleiks og var þar á ferðinni dæmigert mark fyrir bakvörðinn knáa - bylmingsskot af löngu færi í bláhornið.

Hálfleikur í Meistaradeildinni
Nú er kominn hálfleikur í leikjunum tveimur sem standa yfir í Meistaradeild Evrópu. Liverpool hefur yfir 1-0 á útvelli gegn PSV Eindhoven með marki Steven Gerrard og Andrea Pirlo kom AC Milan í 1-0 gegn Bayern Munchen í Mílanó. Leikirnir eru sýndir beint á rásum Sýnar.
Pirlo kemur Milan yfir
Andrea Pirlo hefur komið AC Milan yfir 1-0 gegn Bayern Munchen í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Pirlo skoraði með góðum skalla á 40. mínútu, en skömmu áður hefði Milan líklega átt að fá vítaspyrnu þegar Kaka var brugðið í teignum.