Fréttir
Óttast um fjölda fólks
Tröllvaxnar flóðbylgjur færðu heilu þorpin á kaf á Salómonseyjum, í vestanverðu Kyrrahafi, í gærkvöld eftir að öflugur neðansjávarskjálfti reið yfir svæðið. (IMK) Þrettán lík hafa fundist en óttast er að mun fleiri hafi farist þar sem upplýsingar af flóðasvæðunum eru af skornum skammti.
Loftferðareftirlit NATO í bígerð
Formaður hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins býst við að fyrir páska muni liggja fyrir áætlun um loftferðaeftirlit við Ísland. Vonast er til að það geti hafist eigi síðar en í sumarlok.
Urmull af aprílgöbbum
Fjölmargir hlupu apríl í gær enda voru aprílgöbb fjölmiðlanna einstaklega fjölbreytt að þessu sinni. Hér á Stöð 2 aðstoðaði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, við sprellið og er óhætt að segja að hann hafi átt stórleik í hlutverki sínu.
Leitað að vistmanni á Sogni
Lögreglan á Selfossi hefur kallað út björgunarsveitir til að leita að vistmanni á Sogni. Maðurinn er ekki talinn hættulegur. Hann hljóp til fjalla norðan við vistheimilið upp úr klukkan 16 í dag. Hann er illa búinn, en blautt er og þoka, og lítið skyggni á leitarsvæðinu. Maðurinn 35 ára og grannvaxinn. Hann er klæddur blárri hettupeysu, gallabuxum og hvítum íþróttaskóm.
Búið að skipa svokallaða Breiðavíkurnefnd
Forsætisráðherra hefur skipað nefnd sem ætlað er að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn. Í fyrstu er nefndinni ætlað að kanna starfsemi Breiðavíkur á árunum 1950 til 1980. Meðal þess sem nefndinni er ætlað að skoða er í hvaða mæli börnin, sem vistuð voru á Breiðavík, hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi á meðan á dvölinni stóð og leggja fram tillögur til stjórnvalda um frekari viðbrögð. Nefndin hefur til fyrsta janúar, á næsta ári, til að skila inn skýrslu til forsætisráðherra.
Árásarpiltarnir ákærðir á næstunni
Kæra á hendur piltunum þremur, sem frömdu hrottalega líkamsárás í Garðarstræti á nýársnótt, verður send til ákærusviðs lögreglu á næstunni. Piltarnir, sem allir eru ungir að árum, geta átt yfir höfði sér allt að 16 ára fangelsi.
Sigrún Eldjárn hlaut Sögusteininn 2007
Sigrún Eldjárn er fyrsti verðlaunahafi barnabókaverðlaunanna Sögusteins árið 2007. Verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn í dag á alþjóðlegum degi barnabókarinnar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálráðherra afhenti Sigrúnu verðlaunin, en það var einróma álit dómnefndar að hún hlyti verðlaunin að þessu sinni.
Kosið um staðsetningu, ekki framtíð álframleiðslu
Greiningardeild Kaupþing segir að íbúakosningin í Hafnarfirði um helgina hafi snúist um staðsetningu álvers, en ekki framtíð álframleiðslu hér á landi. Umframorka sem ætluð hafi verið til stærra álvers í Straumsvík geti nýst annars staðar. Þar komi nýtt álver í Helguvík sterklega til greina.
Hráolíuverð lækkaði lítillega
Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði í dag eftir nokkra hagnaðartöku fjárfesta á helstu mörkuðum. Olíuverðið er þó enn yfir 65 bandaríkjadölum á tunnu. Verðið tók kipp uppá við eftir að sjóliðar voru handteknir á Persaflóa á föstudaginn fyrir rúmri viku.
Eimskip opnar nýja skrifstofu á Ítalíu
Eimskip opnar aðra skrifstofu sína í Genúa á Ítalíu í dag, 2. apríl. Opnun skrifstofunnar er liður í markvissri uppbyggingu Eimskips í Evrópu og miðast að því að styrkja enn frekar stöðu félagsins á ítalska markaðnum, að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Viðsnúningur hjá Nýsi
Fasteignafélagið Nýsir hf og dótturfélög þess skiluðu 450,6 milljóna króna tapi á síðasta ári samanborið við 1.623 milljóna króna hagnað árið 2005. Helsta ástæðan eru gengisbreytingar og mikill vaxtakostnaður af framtíðarfjárfestingum á Íslandi og erlendis sem ekki eru farnar að skila fullri arðsemi, að því er segir í uppgjöri félagsins.
Allir sjóliðarnir sagðir hafa játað
Allir bresku sjóliðarnir sem Íranar hafa í haldi sínu hafa nú viðurkennt að hafa siglt inn í lögsögu ríkisins í óleyfi, að því er þarlendir fjölmiðlar herma. Íranska ríkissjónvarpið birti í gærkvöld og í morgun nýjar myndir af sjóliðunum þar sem þeir játa brot sín.
Heilu þorpin fóru á kaf
Að minnsta kosti þrettán fórust þegar risavaxin flóðbylgja sem myndaðist í kjölfar neðansjávarskjálfta skall á Salómonseyjum í Kyrrahafi í gærkvöld. Fjölda fólks er saknað og því er óttast að mun fleiri hafi látist vegna flóðbylgjunnar en fyrstu upplýsingar benda til.
Minna tap hjá Pliva
Króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva tapaði rétt tæpum 35,2 milljónum dala, jafnvirði 2,3 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári. Til samanburðar nam tap fyrirtækisins tæpum 92 milljónum dala, tæplega 6,1 milljarði króna, árið á undan. Bandaríska lyfjafyrirtækið Barr keypti Pliva síðastliðið haust á 2,4 milljarða bandaríkjadali eða 170,5 milljarða íslenskra króna eftir harða samkeppni við Actavis um félagið.
Tilboð í Sainsbury fyrir vikulok
Fjárfestahópurinn CVC mun leggja fram að minnsta kosti 10 milljarða punda, jafnvirði um 1.300 milljarða íslenskra króna, yfirtökutilboð í bresku verslanakeðjuna Sainbury fyrir lok þessarar viku. Þetta staðhæfðu breskir fjölmiðlar um helgina.
Indverjar hækka stýrivexti
Seðlabanki Indlands ákvað undir lok síðustu viku að hækka stýrivexti um fjórðung úr prósentustigi og standa vextirnir nú í 7,75 prósentum. Þetta er í annað sinn á þessu ári sem bankinn hækkar stýrivexti í þeim tilgangi að halda aftur af verðbólgu. Stýrivextir á Indlandi hafa ekki verið hærri í tæp fjögur og hálft ár.
Veltan í Kauphöllinni nam 350 milljörðum
Heildarvelta í Kauphöll Íslands í nýliðnum mánuði nam 350 milljörðum króna og nemur heildarvelta ársins nú 1.329 milljörðum. Þetta er þriggja prósenta aukning frá sama tíma í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni. Hlutabréfavelta jókst um 18 prósent á milli ára en velta á skuldabréfamarkaði dróst saman.
Engin áhrif á virkjunaráform
Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, segir niðurstöðu kosninga um stækkun álversins í Straumsvík geta haft skammtímaáhrif á framgang virkjunaráætlana fyrirtækisins í Þjórsá.
Sautján sendiherrar á kjörtímabilinu
Á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka hafa sautján nýir sendiherrar verið skipaðir í embætti á vegum utanríkisráðuneytisins og tvö ný sendiráð opnuð. Framlag úr ríkissjóði til sendiráða Íslands hefur hækkað nokkuð til samræmis við það.
Byrgismálið til ríkissaksóknara
Rannsókn á meintum misbeitingarbrotum Guðmundar Jónssonar í Byrginu er á lokastigi og verður málið sent til Ríkissaksóknara á næstu dögum. Í það minnsta átta konur lögðu inn kæru á hendur Guðmundi en málið hefur verið til rannsóknar hjá Sýslumanninum á Selfossi.
Iðnaðarráðherra hefur áhyggjur af efnahagsmálum
Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra, hefur áhyggjur af því að efnahagslífið í landinu líði fyrir ákvörðun Hafnfirðinga um að hafna stækkun álversins. Hann segir óheppilegt að kosningar af þessu tagi beinist gegn einu fyrirtæki og vanda verði betur til verka ef færa eigi valdið til íbúanna.
Grjóti og flugeldum kastað að sendiráðinu
Vonir standa til að deilan, vegna bresku sjóliðanna sem Íranar hafa í haldi sínu, leysist á næstu dögum eftir að greint var frá því að beinar viðræður á milli ríkjanna standi yfir. Mótmælendur köstuðu grjóti og flugeldum að breska sendiráðinu í Teheran í dag.
Mikill áhugi á þátttöku í varaliðinu
Færri komust að en vildu þegar fyrstu úrtökuprófin, fyrir nýtt varalið lögreglunnar, fóru fram um helgina. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir að í ljósi viðtakanna verði að hraða byggingu nýs lögregluskóla á Keflavíkurflugvelli og jafnframt kemur til álita að fjölga verulega í liðinu.
Blátt áfram fagna lögum um fyrningarfrest
Blátt áfram fagnar samstöðu stjórnmálaflokka í málefnum um lengingu á fyrningarfresti í alvarlegum kynferðisbrotum gegn börnum. Lögin voru samþykkt 16. mars síðastliðinn. Blátt áfram safnaði 23 þúsund undirskriftum á þremur árum sem sendar voru til ráðherra og þingmanna.
Sprengt í Breska sendiráðinu í Teheran
Nokkrar sprengingar heyrðust í sendiráði Bretlands í Teheran nú rétt í þessu. Reuters fréttastofan skýrir frá þessu. Vitni heyrðu nokkrar minni sprengingar og sáu reyk inn í sendiráðsbyggingunni. Sprengjurnar sprungu á sama tíma og mótmæli fór fram vegna sjóliðanna sem eru í haldi í Íran. Eitt vitni sagði átta heimagerðar sprengjur hafa sprungið.
Framkoma Írana ófyrirgefanleg
George Bush forseti Bandaríkjanna segir Írana hafa hagað sér með óafsakanlegum hætti í deilunni um bresku sjóliðanna fimmtán sem þeir hafa í haldi sínu. Á meðan saka írönsk stjórnvöld Breta um að ganga fram af hroka og eigingirni.
Uppstokkun í rúmönsku ríkisstjórninni
Calin Tariceanu forsætisráðherra Rúmeníu stokkaði upp í tveggja ára ríkisstjórn sinni í dag. Ráðherrar úr demokrataflokknum í stjórnarsamstarfi misstu ráðherrastóla sína. Frjálslyndi flokkur Tariceanu hafði þrýst á þrjá ráðherrana að segja af sér. Stjórnmálaskýrendur töldu afsögn ráðherranna geta splundrað stjórnarsamstarfi flokkanna þriggja.
Málflutningur frjálslyndra ekki grundvöllur fyrir samstarfi
Varaformenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar segja málflutning frjálslyndra í málefnum innflytjenda ekki góðan grundvöll fyrir samstarfi. Katrín Jakobsdóttir varaformaður Vinstri grænna útilokar þó ekki samstarf við flokkinn. Þetta kemur fram í svari Katrínar við opnu bréfi Sigurðar Ólafssonar alþjóðastjórnmálafræðings.
Rússar banna smásala af erlendum uppruna
Rússar hafa bannað útlendingum að vinna sem smásalar í verslunum og á mörkuðum með nýjum lögum sem tóku gildi í dag. Um 20 þúsund útlendingar vinna á mörkuðum í Moskvu. Hefð hefur verið fyrir því frá tímum Sovétríkjanna. Vladimir Putin forseti Rússlands segir lögin séu sett þar sem hagsmunir Rússa séu í húfi.
Enn deilt um sjóliðana
George Bush Bandaríkjaforseti fordæmdi í gær framgöngu íranskra stjórnvalda í deilunni vegna bresku sjóliðanna fimmtán sem þeir hafa í haldi sínu og sagði hana með öllu óafskanlega. Fyrr í gær fullyrti Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti hið gagnstæða og sagði að bresk stjórnvöld gengju fram af hroka og eigingirni.