Fréttir

Fálkastofninn nálgast hámark
Árlegri talningu Náttúrufræðistofnunar Íslands á fálkum er lokið. Stærsti áhrifaþáttur á stærð stofnsins er ástand rjúpnastofnsins, en rjúpa er mikilvægasta fæða fálka.

Hugsanavilla Hagsmunasamtakanna
Þórólfur Matthíasson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, vísar athugasemdum Andreu Ólafsdóttur, formanns Hagsmunasamtaka heimilanna, á bug. Andrea gerði um helgina athugasemdir við gagnrýni Þórólfs á útreikninga samtakanna.

Elsti Íslendingurinn lést í gær
Elsti Íslendingurinn, Torfhildur Torfadóttir, lést á Ísafirði í gær. Torfhildur varð 107 ára gömul 24. maí síðastliðinn.

Evrópumál kljúfa fólk frá Framsóknarflokki
Guðmundur Steingrímsson alþingismaður segir sig úr Framsóknarflokknum í dag.

Helmingi minni stofn nú en 2001
Stofn karfa í úthafinu mældist rúmlega 900 þúsund tonn í alþjóðlegum karfaleiðangri Íslendinga, Þjóðverja og Rússa sem er nýlokið.

Valdatími Gaddafís er á enda runninn
Uppreisnarliðið í Líbíu hafði í gærkvöld náð höfuðborginni Trípolí að mestu á vald sitt en barðist áfram við dygga stuðningsmenn Múammars Gaddafí á ýmsum stöðum í borginni. Hvergi sást til Gaddafís sjálfs en augljóst mátti vera að valdatíð hans væri á enda. Uppreisnarliðið handtók í gær tvo af sonum Gaddafís, Saif al-Islam og Mohammed. Óstaðfestar fregnir bárust af því að þriðji sonurinn, Al-Saadi, hefði annað hvort verið handtekinn líka eða felldur.

Styðja nýju stjórnina
Þjóðarleiðtogar víða um heim lýstu því yfir í gær að stjórn Gaddafís væri fallin. Þeir hvöttu jafnframt einræðisherrann til þess að gefast upp og komast þannig hjá frekara blóðbaði.

Samkynhneigðir ósáttir við forsætisráðherrann
„Það eru margir innan okkar hóps, og þetta hefur verið rætt, sem eru óánægðir með forsætisráðherra og hvernig hún hefur tekið á þessum málum, við hefðum viljað hafa hana virkari í okkar réttindabaráttu og það er ekkert leyndarmál,“ segir Árni Grétar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Samtakanna "78.

Heimspressan fylgist með opnun Hörpu
Blaðamenn frá helstu fjölmiðlum heims eru staddir í Reykjavík til að fylgjast með því þegar glerhjúpur Hörpunnar verður lýstur upp.

Piparúða sprautað inni á Kaffibarnum
Piparúða var sprautað inni á skemmtistaðnum Kaffibarnum nú á fimmtudagskvöld með þeim afleiðingum að nokkrir gestir fengu ertingu í háls og augu. Samkvæmt starfsmanni Kaffibarsins var atvikið þó ekki alvarlegt og engan sakaði.

Kveikt á friðarsúlunni fyrir fórnarlömbin
Kveikt verður á Friðarsúlunni í Viðey á morgun og fórnarlamba hryðjuverkanna í Noregi minnst. 21. ágúst er í Noregi tileinkaður fórnarlömbunum. Reykjavíkurborg vill með þessu senda innilegar samúðarkveðjur til Norðmanna og minnast þeirra sem létust. Kveikt er á súlunni í samráði við Yoko Ono, en venjulega er ekki kveikt á henni fyrr en 9. október.

Fleiri ferðir á Menningarnótt
samgöngurFrítt verður í alla strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu á Menningarnótt í Reykjavík, sem er í dag og kvöld. Síðustu ferðir verða frá Hlemmi og Vonarstræti um klukkan eitt eftir miðnætti.

Ábyrgðin er okkar
Fulltrúar sveitarstjórna í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi og Akureyri telja ábyrgð sveitarfélaganna á stöðu leikskólakennara töluverða. Árangurslausum kjaraviðræðum Félags leikskólakennara og samninganefndar sveitarfélaganna lauk á ný rétt eftir hádegi í gær. Boðað hefur verið til nýs fundar klukkan ellefu í dag. Ef ekki næst að semja fara leikskólakennarar í verkfall á mánudag.

Varnargarðurinn ver 60 íbúðir
Kynntar hafa verið tillögur vegna mats á umhverfisáhrifum vegna ofanflóðagarða undir Gleiðarhjalla í Skutulsfirði. Markmiðið er að verja um sextíu íbúðir í Ísafjarðarbæ við Hjallaveg og Hlíðarveg. Garðarnir breyta kennileitum á Ísafirði mikið enda vel sýnilegir en til að bæta fyrir þau útivistarsvæði sem tapast á framkvæmdasvæðinu er gert ráð fyrir gönguleiðum á og við varnargarðana, sem og ofan byggðarinnar.

Tímarammi þyrlukaupa skýrist brátt
Tímasetning á kaupum nýrrar björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna gæti skýrst á fundi ríkisstjórnar í næstu viku.

Allt að 71 prósents verðmunur
Penninn Eymundsson í Kringlunni er með hæsta verð á nýjum skólabókum í flestum tilfellum, samkvæmt nýrri verðkönnun ASÍ. Griffill er oftast með lægsta verðið.

Gagnrýnir verðtryggingarútreikninga
Útreikningar Hagsmunasamtaka heimilanna vegna kvörtunar samtakanna til Umboðsmanns Alþingis eru villandi þar sem gleymst hefur að núvirða greiðslurnar, segir Þórólfur Matthíasson, deildarforseti hagfræðideildar Háskóla Íslands.

Kvikmyndaskólinn nýtur ekki sannmælis
Hilmar Oddsson, rektor Kvikmyndaskóla Íslands, segir að skilaboðin sem bárust út af ríkisstjórnarfundi í gær hafi í engu skýrt stöðu skólans. Hann telur að skökk mynd sé dregin upp af skólanum; máluð sé mynd af skóla með ósanngjarnar kröfur án þess að sú staðreynd komi fram að skólinn bjóði upp á sambærilegt nám við það besta á Norðurlöndunum fyrir brotabrot af þeim kostnaði sem þekkist annars staðar.

Efla samstarf og viðskipti
Luis Sergio Oliveira, sjávarútvegs- og fiskeldisráðherra Brasilíu, er í heimsókn á Íslandi. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tók á móti honum í gær.

Nota bókmenntir í Alzheimers-meðferð
„Þetta virkar mjög vel. Það er mikil gleði í kringum þetta og fjölskyldur sjúklinganna finna fyrir mun á sínum kærkomnu,“ segir Halldóra Arnardóttir listfræðingur. Halldóra er skipuleggjandi nýrrar bókmenntasmiðju sem er hluti af meðferð við Alzheimers-sjúkdómnum. Bókmenntasmiðjan hófst í gær með upplestri „Hvaðefsögu“ Þórarins Eldjárns rithöfundar úr bók sinni Alltaf sama sagan.

Össur vill Assad frá völdum
Össur Skarphéðinsson tekur undir kröfur margra þjóðarleiðtoga um að Bashar al Assad, forseti Sýrlands, víki úr embætti.

Sefaði áhyggjur Kínverja af BNA
Kínverjar segjast bera fullt traust til bandarísks efnahagslífs og óttast ekki um fjárfestingu sína í ríkisskuldabréfum þótt stífir vindar hafi geisað.

Milljarðarnir að verða sjö
Mannkyninu hefur fjölgað hratt síðustu áratugina. Síðar á þessu ári er reiknað með því að við verðum sjö milljarðar alls, samkvæmt nýrri spá franskra fræðimanna sem nota tölur frá Sameinuðu þjóðunum.

Flugmenn boða strax aðgerðir
Síðdegis í gær slitnaði upp úr viðræðum flugmanna og Icelandair. Flugmenn félagsins hafa boðað ótímabundið yfirvinnubann á þriðjudaginn kemur, hafi samningar ekki tekist þá.

Veggjöld verða sett á eða olíuverð hækkað
Núverandi gjaldtaka af olíu stendur ekki undir vegakerfi landsins. Uppsafnaður halli síðustu ára er 6 milljarðar króna. Í fjármálaráðuneytinu er nú hugað að því hvernig auka megi tekjur af umferð. Allt kemur til greina í þeim efnum, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins: hærri gjöld, að breyta því hlutfalli bensínverðs sem rennur til ríkissjóðs og vegtollar.

Fíkniefnahvolpar í hæsta gæðaflokki
„Þessi tilraun heppnaðist framar öllum vonum. Ég er búinn að þjálfa þrjá hvolpanna og er að byrja með þann fjórða. Þessir hvolpar standast hæstu gæðakröfur.“

Vitni að hnífstungumáli yfirheyrð
Karlmaður um fertugt, sem veitti öðrum manni lífshættulega áverka á hálsi með hníf á vínveitingastaðnum Monte Carlo við Laugaveg í fyrrinótt, hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 29. júlí næstkomandi að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Fólk sniðgangi lambakjöt
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, mótmælir harðlega nýrri viðmiðunarverðskrá Landssambands sauðfjárbænda, en í henni er gert ráð fyrir 25 prósenta hækkun á verði til bænda. Gylfi segir þetta algjörlega úr takti við aðrar hækkanir í samfélaginu og hvetur landsmenn til að mótmæla með því að hætta að kaupa lambakjöt.

Umferð hleypt yfir brúna í dag
„Þetta er bráðabirgðabrú en hún tekur samt alla þungaflutninga sem almennt eru leyfðir hér,“ segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri um nýju brúna yfir Múlakvísl.Brúin sjálf var tilbúin í gær og vatni hleypt undir hana, en þó var eftir nokkur vinna við vegspotta austanmegin við hana.

Stefna á opnun á næsta ári
Áætlað er að nýtt hótel við Keflavíkurflugvöll verði tekið í notkun á fyrri hluta næsta árs. Hjalti Sigurðsson, hótelstjóri Hótel Smára, sem ráðgert er að komi að rekstri hótelsins, staðfesti þetta við Fréttablaðið í gær.