
Erlendar

Fulham úr leik
Úrvalsdeildarlið Fulham féll úr keppni í enska bikarnum í dag þegar liðið lá á heimavelli fyrir neðrideildarliði Leyton Orient 2-1. Fulham fékk tækifæri til að jafna leikinn úr vítaspyrnu í síðari hálfleik, en markvörður Orient var hetja liðsins og varði spyrnuna og tryggði sínum mönnum ótrúlegan sigur. Heiðar Helguson var ekki í liði Fulham í dag.

Frumraun Keane breyttist í martröð
Roy Keane vill eflaust gleyma fyrsta leik sínum með Glasgow Celtic sem fyrst, því liðið beið lægri hlut fyrir 1. deildarliði Clyde í bikarkeppninni í dag 2-1. Keane hafði hægt um sig í leiknum, en tvö mörk voru dæmd af Clyde í leiknum og þóttu það umdeildir dómar.

Bryant skoraði 50 stig
Kobe Bryant er heldur betur í stuði þessa dagana og í nótt skoraði hann 50 stig fyrir LA Lakers í sigri liðsins á grönnum sínum í LA Clippers 112-109. Bryant hefur því skorað að meðaltali 49 stig í síðustu tveimur leikjum liðsins og í nótt hirti hann auk þess 8 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.

Skrautlegur sigur Liverpool
Liverpool bar sigurorð af Luton Town 5-3 í lokaleik dagsins í FA bikarnum á Englandi, en leikurinn var bráðfjörugur og var sýndur í beinni útsendingu á Sýn. Heimamenn í Luton Town komust í 3-1 í leiknum, en Liverpool sýndi klærnar í síðari hálfleik og tryggði sér sigurinn.
Luton yfir gegn Liverpool í hálfleik
Luton Town er heldur betur að koma á óvart gegn Liverpool í lokaleik dagsins í enska bikarnum. Luton hefur yfir 2-1 í hálfleik, eftir að Steven Gerrard hafði komið Evrópumeisturunum yfir senmma leiks. Leikurinn er í beinni útsendingu á Sýn.

Úrvalsdeildarliðin í vandræðum en sluppu við áföll
Nokkur úrvalsdeildarlið lentu í vandræðum gegn smærri liðum í enska bikarnum í dag, en þó sluppu þau við stóráföll. Everton náði aðeins jafntefli 1-1 gegn Milwall, Middlesbrough gerði jafntefli við Nuneaton 1-1, Birmingham gerði markalaust jafntefli við Torquay og West Brom gerði 1-1 jafntefli við Reading. Að öðru leiti náðu úrvalsdeildarliðin að leggja andstæðinga sína að velli.

Eiður tryggði Chelsea sigurinn
Eiður Smári Guðjohnsen tryggði Chelsea 2-1 sigur á Huddersfield í enska bikarnum í dag með marki á 82. mínútu. Carlton Cole kom Chelsea yfir í leiknum, en Huddersfield sýndi mikla seiglu og náði að jafna, áður en Eiður Smári gerði út um leikinn í lokin. Eiður var fyrirliði Chelsea í dag.

Martin Djetou látinn fara frá Bolton
Sam Allardyce hefur ákveðið að láta Martin Djetou fara frá félaginu eftir að leikmanninum mistókst að sanna sig síðan hann kom til Bolton í haust. Djetou hafði vonast til að fá að spila með liðinu í bikarnum nú um helgina til að sanna sig fyrir stjóranum, en sá hefur ekki talið sig hafa not fyrir leikmanninn.

Orðað við Iaquinta hjá Udinese
Breska dagblaðið Mirror greinir frá því í dag að Tottenham Hotspurs sé nú að undirbúa 7 milljón punda tilboð í ítalska sóknarmanninn Vincenzo Iaquinta hjá Udinese. Þá segir í sömu frétt að félagið sé í viðræðum við Portsmouth um að selja þá Noe Pamarot, Sean Davis og Pedro Mendes fyrir alls um 5 milljónir punda til að fjármagna kaupin á Iaquinta.

Everton undir gegn Millwall
Nú standa yfir 23 leikir í enska bikarnum og leikhlé komið í þeim flestum. Það sem af er stendur hæst að Millwall hefur yfir 1-0 í hálfleik gegn úrvalsdeildarliði Everton. Blackburn hefur yfir 2-0 gegn QPR með mörkum frá Todd og Bellamy, Chelsea hefur yfir 1-0 gegn Huddersfield með marki frá Carlton Cole, en þar er Eiður Smári Guðjohnsen í byrjunarliði Chelsea.

Clijsters sigraði í Hong Kong
Tenniskonan Kim Clijsters sigraði á sterku tennismóti sem fram fór í Hong Kong í dag, þegar hún lagði stigahæstu tenniskonu heims, Lindsay Davenport, í úrslitaleik 6-3 og 7-5. Þær stöllur verða svo í eldlínunni á opna ástralska meistaramótinu sem fram fer síðar í þessum mánuði.

Jón Arnór í stuði með Napoli
Jón Arnór Stefánsson var í stuði með liði sínu Napoli í ítölsku A-deildinni í körfubolta í gærkvöldi og skoraði 21 stig í sigri liðsins á Roma, 94-70 og er liðið í þriðja sæti deildarinnar eftir sigurinn.

Í viðræðum við Fulham
Markvörðurinn Antti Niemi er nú í viðræðum við Fulham um að ganga til liðs við félagið frá Southampton, þar sem hann hefur varið markið með ágætum síðustu ár. Charlton var einnig talið vera á höttunum eftir Niemi, en nýjustu fréttir herma að hann sé við það að skrifa undir hjá Fulham og snúi því aftur í úrvalsdeildina. Kaupverðið er talið vera um 1,5 milljónir punda.

Palace hafnaði stóru tilboði í Johnson
Birmingham hafði ekki erindi sem erfiði í dag þegar liðið bauð Crystal Palace 3 milljónir punda og tvo leikmenn í skiptum fyrir framherjann Andy Johnson, en Palace sagði þvert nei eins og áður. Svörin sem Birmingham fékk var að Palace ætlaði sér í úrvalsdeildina og því hefði það ekki efni á að selja Johnson fyrr en í allra fyrsta lagi í sumar.

Arsenal lagði Cardiff
Þremur leikjum er nú lokið í enska bikarnum. Arsenal lagði Cardiff 2-1 með mörkum frá Robert Pires, Aston Villa lagði Hull City 1-0 á útivelli með marki Gareth Barry, en 1. deildarlið Leeds náði jafntefli 1-1 á útivelli gegn Wigan og því verða liðin að mætast öðru sinni á heimavelli Leeds.

Phoenix burstaði Miami
Stjörnum prýtt lið Miami Heat á ekki sjö dagana sæla um þessar mundir og í nótt tapaði liðið stórt fyrir Phoenix Suns 111-93, eftir að hafa fengið á sig 47 stig í fyrsta fjórðung leiksins. Dwayne Wade lék ekki með Miami í nótt, en Steve Nash fór á kostum í liði Phoenix, skoraði 11 stig og gaf 19 stoðsendingar, þar af 12 í fyrsta leikhlutanum, sem er annar besti árangur í sögu NBA.

Robson að landa Ehiogu
Bryan Robson, stjóri West Brom, er sagður vera að leggja lokahönd á að fá til sín varnarmanninn Ugo Ehiogu frá Middlesbrough, en Ehiogu lék einmitt undir stjórn Robson hjá Boro á sínum tíma. Robson var í stífum viðræðum við forráðamenn Boro í gær og talið er að samningar gætu jafnvel náðst um helgina. Ehiogu er 33 ára miðvörður og á að baki landsleiki fyrir England, en hefur lítið spilað í vetur.

Thierry Henry ætlar að vera áfram hjá Arsenal
Franski knattspyrnusnillingurinn Thierry Henry hefur nú bundið enda á vangaveltur um framtíð hans hjá Arsenal, því í kvöld lýsti hann því yfir í viðtali við The Sun að hann ætlaði að vera áfram hjá félaginu í það minnsta út næsta keppnistímabil. Þetta eru mjög góðar fréttir fyrir stuðningsmenn Arsenal, sem óttuðust mjög að hann fetaði í fótspor Patrick Vieira og reyndi fyrir sér á meginlandinu.

Ferdinand semur til 2010
Hinn tvítugi Anton Ferdinand hjá West Ham hefur undirritað nýjan samning við félagið sem gildir til ársins 2010. Ferdinand hefur verið hjá félaginu allar götur síðan 2001 og er aðeins tvítugur. "Ég er í skýjunum yfir því að búið sé að semja við Anton, hann á eftir að gera stóra hluti í framtíðinni," sagði Alan Pardew, stjóri West Ham. Þess má geta að Anton er bróðir Rio Ferdinand hjá Manchester United.

Van Persie skrifaði undir
Hollenski framherjinn Robin Van Persie hefur skrifað undir nýjan samning við Arsenal sem nær allt til ársins 2011. Hann var keyptur frá Feyenoord fyrir 2,75 milljónir vorið 2004, en miklar vonir eru nú bundnar við hann í framtíðinni.

Fimm leikir í beinni í enska bikarnum
Það verður sannkölluð íþróttaveisla á Sýn um helgina, þar sem hápunkturinn verður FA bikarinn á Englandi og hvorki meira né minna en fimm leikir í beinni útsendingu á laugardag og sunnudag. Auk þessa verða beinar útsendingar úr ítalska- og spænska boltanum og NBA körfuboltanum svo eitthvað sé nefnt.

Hornets spila þrjá leiki í New Orleans
Forráðamenn New Orleans/Oklahoma City Hornets-liðsins í NBA deildinni hafa nú tilkynnt að liðið muni spila þrjá heimaleiki í New Orleans í vor sökum þess hve vel uppbygging í borginni gengur eftir að fellibylurinn Katrín reið þar yfir á sínum tíma.

Henry fer til Barcelona
Fyrrum sóknarmaður Arsenal, Ian Wright, segist búast fastlega við því að Frakkinn Thierry Henry gangi til liðs við Barcelona á Spáni í sumar og tekur þar með undir áhyggjur stjórnarformanns Arsenal á dögunum.

Brown orðaður við tvö félög
Michael Brown, leikmaður Tottenham, hefur nú verið orðaður við tvö félög í ensku knattspyrnunni, en hann hefur ekki átt fast sæti í liði Tottenham síðan þeir Jermaine Jenas og Edgar Davids gengu í raðir liðsins í sumar. Manchester City og Sheffield United eru sögð hafa mikinn áhuga á Brown, sem er mikill vinnuhestur, en hann kom einmitt til Tottenham frá Sheffield United fyrir tveimur árum.

Mwaruwari kominn til Portsmouth
Enska úrvalsdeildarliðið Portsmouth hefur gengið frá kaupum á landsliðsmanninum Benjani Mwaruwari frá Zimbabwe fyrir rúmar fjórar milljónir punda. Mwaruwari þessi er sóknarmaður og spilaði áður með franska liðinu Auxeirre. Hann er 27 ára gamall og valdi Portsmouth fram yfir Wigan og Marseille sem einnig höfðu áhuga á að fá hann í sínar raðir.

Ákærður fyrir ljóta tæklingu
David Sommeil, leikmaður Manchester City, á yfir höfði sér þriggja leikja bann fyrir ljóta tæklingu sína á Lee Young-Pyo hjá Tottenham í leik liðanna í vikunni. Martin Jol, stjóri Tottenham kallaði þetta ljótustu tæklingu sem hann hefði séð, en boltinn var víðsfjarri þegar Sommeil sparkaði í hné mótherja síns.

Schwarzer á sölulistann
Middlesbrough hefur samþykkt beiðni markvarðarins Mark Schwarzer um að vera settur á sölulista hjá félaginu. Schwarzer hefur spilað 342 leiki fyrir Boro síðan hann kom til liðsins árið 1997, en hann er ástralskur landsliðsmaður. Honum þótti kominn tími til að breyta til og hefur Steve McClaren ákveðið að verða við beiðni hans, með nokkrum trega þó.

Staðfestir kaupin á Evra
Franski landsliðsmaðurinn Patrice Evra á nú aðeins eftir að ganga í gegn um læknisskoðun á mánudag til að ganga formlega í raðir Manchester United fyrir 5,5 milljónir punda. Evra er 24 ára gamall og lék áður hjá Mónakó í Frakklandi, en Alex Ferguson segist hafa haft augastað á honum allar götur síðan Gabriel Heinze meiddist í haust.

McGrady vann einvígið við James
Tveir leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Tracy McGrady og LeBron James háðu mikið einvígi þegar Houston vann góðan útisigur á Cleveland 90-81 og svo virðist sem Cleveland sakni Larry Hughes mikið, en hann verður frá í allt að tvo mánuði vegna fingurbrots. Cleveland hafði verið á mikilli sigurgöngu fyrir leikinn, en náði ekki að leggja meiðslum hrjáð lið Houston.

Liverpool er einhæft lið
Jose Mourinho, stjóri Chelsea, segir að þó Liverpool sé vissulega frábært varnarlið, sé það í raun það eina sem liðið geti og segir liðið mjög einhæft. "Liverpool verst vel, en það er líka það eina sem þetta lið getur. Það er mjög erfitt að spila á móti liði sem leikur eins og Liverpool og menn þurfa að nota höfuðið ef þeir ætla að vinna þá, það þýðir ekki að spila með hjartanu á móti þeim, því þá tapar þú."