Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var ákveðið að falla frá frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem átti að heimila lagningu raflína frá Kröfluvirkjun að Bakka. Frumvarpið er eitt þeirra mála sem hefur tafið þinglok.
Þrjú sveitarfélög á svæðinu hafa gefið út fjögur framkvæmdaleyfi vegna lagningar raflínanna. Fyrr á árinu voru þau framkvæmdaleyfi kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í júní og ágúst kvað úrskurðarnefndin upp bráðabirgðaúrskurði þar sem stöðvaðar voru framkvæmdir á hluta leiðarinnar í Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit. Þessir úrskurðir nefndarinnar settu verkefnið í uppnám og var frumvarpinu ætlað að eyða þeirri óvissu sem var komin upp í málinu.
Þann 10. október síðastliðinn birti úrskurðarnefndin efnisúrskurð þar sem framkvæmdaleyfi Skútustaðahrepps vegna Kröflulínu 4 er fellt úr gildi á grundvelli formgalla við útgáfu leyfisins. Úrskurðurinn staðfestir einnig að umhverfismat vegna háspennulínu frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka sé í gildi og því sé ekki þörf á nýju umhverfismati.
Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var ákveðið að falla frá stjórnarfrumvarpinu eftir samráð við sveitarfélögin sem hlut eiga að málinu. Í framhaldinu munu sveitarfélögin fara yfir þau framkvæmdaleyfi sem gefin hafa verið út vegna verkefnisins og meta hvort tilefni sé til frekari viðbragða.
Frumvarp um raflínur að Bakka lagt til hliðar

Tengdar fréttir

Ekki þörf á nýju umhverfismati fyrir Bakkalínur
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fellst ekki á kæru Landverndar um að mat á umhverfisáhrifum háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka sé úrelt eða forsendur fyrir því brostnar.

Mælt fyrir umdeildu frumvarpi um raflínur til Bakka
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hætti við að vera viðstödd lagningu hornsteins að Þeistareykjavirkjun til að að mæla fyrir frumvarpi um raflínur.

Kæra Bakkalínur til ESA
Náttúruverndarsamtökin Fjöregg í Mývatnssveit og Landvernd hafa kært fyrirhugaða lagasetningu um Bakkalínur til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

Óvissa um afdrif frumvarpsins eftir niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar
Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál felldi í gær úr gildi framkvæmdaleyfi Landsnets fyrir Kröflulínu 4.