Fulltrúi Kennarasambandsins í undanþágunefnd vegna verkfalls grunnskólakennara segist hafa hafnað öllum umsóknum um undanþágu, á þeirri forsendu að láta jafnt yfir alla grunnskólakennara ganga. Hún segir ekkert því til fyrirstöðu að sækja á ný um undanþágu, dragist verkfallið á langinn. Á anna tug umsókna hefur borist undanþágunefnd vegna verkfalls grunnskólakennara. Öllum undanþágubeiðnum um að kenna fötluðum börnum hefur verið hafnað og er óttast að neyðarástandi kunni að skapast á heimilum margra barnanna. Tveir fulltrúar eiga sæti í nefndinni, annars vegar frá kennurum og hins vegar frá sveitarfélögunum, og þar sem þá greindi á um niðurstöðurnar var öllum umsóknunum hafnað. Þórarna Jónasdóttir, fulltrúi Kennarasambandsins, telur ekki forsendur til að veita undanþágur. Hún segir það ekki talið neyðarástand þegar starfsdagar grunnskólakennara séu, né í páska-, jóla- eða sumarleyfum, og á þeirri forsendu hafi hún tekið þá ákvörðun að láta jafnt yfir alla grunnskólakennara ganga og hafa sem meginreglu að hafna umsóknunum. Sigurður Óli Kolbeinsson, fulltrúi sveitarfélaga í undanþágunefnd, taldi þarna vera um neyðarástand að ræða fyrir börnin og foreldra þeirra, líkt og var t.d. fallist á um einhverfa nemendur í verkfallinu árið 1995. Þórarna segist ekki geta sagt til um hvort það hafi verið mistök að veita þá undanþágu, enda hafi önnur nefnd verið að verki þá.