Innlent

500 milljónir vegna hættulegs lyfs

Tryggingastofnun hefur á síðustu árum greitt tæpar 500 milljónir króna vegna Vioxx  gigtarlyfsins sem tekið var af markaði í síðustu viku um heim allan vegna alvarlegra aukaverkana. Þetta kemur fram á vefsíðu TR. Vioxx kom á markað hér á landi árið 2000 og var eina lyfið í Cox-2 lyfjaflokknum tvö fyrstu árin, en að sögn Ingu J. Arnardóttur deildarstjóra lyfjadeildar TR hefur notkunin síðustu árin dreifst á fleiri lyf innan sama flokks. Engu að síður var Vioxx algengasta gigtarlyfið í þessum flokki þar til það var tekið úr umferð. Ákvörðun um að taka Vioxx umsvifalaust af markaði um heim allan var tekin í kjölfar niðurstaðna úr klínískri þriggja ára samanburðarrannsókn til að athuga verkun Vioxx 25 mg á endurkomu sepa í ristli hjá sjúklingum með sögu um adenoma í ristli. Í rannsókninni mun hafa komið fram aukin hlutfallsleg áhætta á alvarlegum aukaverkunum frá hjarta- og æðakerfi, svo sem hjartaáfalli og heilablóðfalli eftir átján mánaða samfellda meðferð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×