Innlent

Útsvarið í hámark

Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag verður lagt til að útsvarsprósenta næsta árs verði 13,03 prósent, í stað 12,7 prósenta nú. Ef það verður samþykkt verða útsvarsgreiðslur í Reykjavík samkvæmt hámarks útsvarsprósentu. Af 105 sveitarfélögum á landinu eru það 67 sem innheimta hámarks útsvar. Á höfuðborgarsvæðinu er það einungis í Hafnarfirði og á Álftanesi sem hámarks útsvar er innheimt. Í Kópavogi er útsvarsprósentan 12,94, á Seltjarnarnesi er hún 12,46 prósent og í Garðabæ er hún 12,46 prósent. Jafnframt verður lagt til að fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði í Reykjavík muni hækka um 0,025 prósentustig og verða 0,345 prósent af fasteignamati. Það er sami fasteignaskattur og innheimtur er í Kópavogi. Í Garðabæ er fasteignaskatturinn aðeins lægri, eða 0,31 prósent og 0,34 prósent á Álftanesi. Á Seltjarnarnesi og í Hafnarfirði er fasteignaskattur 0,36 prósent af fasteignamati.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×