Innlent

Reykjavíkurflugvöllur nýttur áfram

Það er óhjákvæmilegt að Reykjavíkurflugvöllur verði nýttur áfram segir samgönguráðherra. Annað væri sóun á þeim fjármunum sem lagðir hafa verið í flugvallarsvæðið að undanförnu. Formaður samgöngunefndar Reykjavíkur segir samgönguyfirvöld vilja flugvöllinn burt en kjósi að segja það ekki að svo stöddu. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri sagði í gær að í sínum huga væri það ekki spurning hvort, heldur hvenær, Reykjavíkurflugvöllur færi úr Vatnsmýrinni. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra lítur málið hins vegar öðrum augum. Hann segir óhjákvæmilegt að flugvöllurinn nýtist áfram því ekki sé hægt að sóa fjárfestingunum sem búið er að setja í flugvallarsvæðið, fyrir utan að þetta er einn allra stærsti atvinnuveitandi borgarinnar. Árni Þór Sigurðsson, formaður samgöngunefndar Reykjavíkur, er hins vegar sama sinnis og borgarstjóri og segir samgönguyfirvöld það einnig, þó að þau kjósi að láta þá skoðun sína ekki í ljósi. Spurður hvers vegna þau geri það segist Árni halda að það sé vegna óvissunar um framtíð Keflavíkurflugvallar.   Sturla segir að samþykkt hafi verið á Alþingi að endurbyggja Reykjavíkurflugvöll með öllum greiddum atkvæðum og að allir stjórnmálaflokkar hafi tekið þát í atkvæðagreiðslunni. „Ég á ekki von á öðru en að sú samstaða geti haldist eitthvað áfram,“ segir samgönguráðherra.  En Árni sér öðruvísi samstöðu fyrir sér, þ.e. sátt um að flugvöllurinn fari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×