Chicago Bulls heiðraði framlag Scottie Pippens til félagsins þegar það ákvað að hengja treyju númer 33 upp í rjáfur og verður hún þar af leiðandi ekki notuð aftur. Treyjan var hengd upp í leikhléi á leik Bulls og Lakers og Pippen átti erfitt með að halda aftur af tárunum þegar hann ávarpaði áhorfendur.
"Þið eigið öll stóran hluta í mínum árangri," sagði Pippen. Michael Jordan, Phil Jackson, Dennis Rodman og Horace Grant voru á meðal þeirra sem heiðruðu Pippen en Bulls beið með að hengja upp treyjuna þar til Jackson kom með Lakers í heimsókn.
Pippen er fjórði leikmaðurinn sem verður þessa heiðurs aðnjótandi hjá Bulls en hinir eru Jordan, Bob Love og Jerry Sloan.