Stuart Pearce ætlar að bíða þar til í lok leiktíðar með að ákveða hvort samningur framherjans Andy Cole verður framlengdur eða ekki, en hinn 34 ára gamli Cole er sem stendur á eins árs samningi við City og hefur komið nokkuð á óvart í vetur. Cole hefur skorað sjö mörk í þeim þrettán leikjum sem hann hefur verið í byrjunarliðinu og hefur sýnt gamalkunna takta oft á tíðum.
"Það væri frábært að semja áður en sumarið gengur í garð, en ég veit að framhaldið veltur allt á því hvernig ég stend mig á vellinum, sem og á heilsu minni. Ég er ákveðinn í að spila eins lengi og líkaminn leyfir og þeir sem héldu að ég hefði komið hingað til að skemmta mér höfðu svo sannarlega rangt fyrir sér," sagði Cole og bætti við að honum liði mjög vel í herbúðum City.